Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, hefur falið Sigurgeiri Þorgeirssyni, ráðuneytisstjóra sjávaraútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, að fara fyrir viðræðunefnd Ísland vegna skiptingar makrílstofnsins. Þetta kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins í dag en þar segir að með því að fela Sigurgeiri að leiða nefndina sé „mikilvægi málsins undirstrikað af Íslands hálfu.“
Eins og mbl.is hefur greint frá fór Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, áður fyrir viðræðunefndinni en hann var hins vegar látinn hætta í vetur. Fram kom í máli utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, að samningi á milli utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um aðkomu Tómasar að nefndinni hefði verið sagt upp þar sem þörf væri fyrir hann í öðrum verkefnum.
Eins og kunnugt er hefur ekki náðst samkomulag um makrílveiðarnar undanfarin ár og því hefur Ísland gefið út einhliða makrílkvóta til íslenskra skipa. Við því hafa Evrópusambandið og Noregur brugðist ókvæða og hefur sambandið undir það síðasta hótað Íslendingum viðskiptaþvingunum vegna deilunnar.