Viðbótarskerðing á aflaheimildum HB Granda sem verður ef fiskveiðistjórnunarfrumvarpið verður samþykkt jafngildir helmingnum af ársveiðum togara fyrirtækisins. Þetta kom fram á starfsmannafundi fyrirtækisins um áhrif kvótafrumvarpanna á rekstur þess.
Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, kynnti fyrir starfsmönnum, fulltrúum byrgja og viðskiptavina, áhrif frumvarpanna á rekstur fyrirtækisins. Kom þar fram að miðað við árið 2011 myndu veiðiheimildir fyrirtækisins skerðast um 2.170 þorskígildistonn til viðbótar við þá skerðingu sem þegar er til staðar. Miðað við meðalveiði botnfisksskipa árið 2010, nemi viðbótarskerðingin veiðum hálfs togara. Heildarskerðingin nemi hins vegar veiðum heils togara, um 3.600 þorskígildistonn.