Ummæli álitsgjafa til skammar

Starfsfólk Brims var hugsi á fundinum um áhrif fiskveiðfrumvarpa stjórnarinnar …
Starfsfólk Brims var hugsi á fundinum um áhrif fiskveiðfrumvarpa stjórnarinnar en lét forstjórann um málflutninginn. mbl.is/Ómar

„Upp­hróp­an­ir og öfg­ar blogg­ara og annarra álits­gjafa gegn fyr­ir­tækj­un­um og starfs­fólki þeirra eru þeim til skamm­ar og lýsa best fá­fræði þeirra. Velt­um við hér í verk­smiðjunni fyr­ir okk­ur hvaða hvat­ir liggja að baki og hvort þetta fólk hafi nokkru sinni stigið um borð í skip, inn í fisk­vinnslu eða fiski­mjöls­verk­smiðju,“ segja starfs­menn fiski­mjöls­verk­smiðju Eskju á Eskif­irði.

Áskor­un þeirra er dæmi um fjölda yf­ir­lýs­inga sem Morg­un­blaðinu hafa borist frá starfs­fólki sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna, í kjöl­far vinnustaðafunda sem stjórn­end­ur fyr­ir­tækj­anna hafa boðað til á meðan skip­in hafa verið bund­in við bryggju.

Í mörg­um yf­ir­lýs­ing­anna er lýst yfir stuðningi við viðkom­andi fyr­ir­tæki og jafn­vel aðgerðir LÍÚ og fram koma áhyggj­ur af af­leiðing­um fisk­veiðifrum­varp­anna fyr­ir fyr­ir­tæk­in, af­komu starfs­fólks og byggðarlög­in. Ein­staka álykt­an­ir hafa borist frá fé­lög­um sjó­manna og land­verka­fólks en þar er ým­ist tekið und­ir áhyggj­ur starfs­fólks af frum­vörp­un­um eða aðgerðum LÍÚ mót­mælt. Þá eru stjórn­völd hvött til sam­ráðs við hags­munaaðila.

Formaður Lands­sam­bands ís­lenskra út­vegs­manna er ánægður með stuðning­inn. „Ég tel það mik­il­vægt að starfs­menn okk­ar sýni okk­ur sam­stöðu í því sem við erum að gera. Sjó­menn og land­verka­fólk gera sér grein fyr­ir því að veiðigjöld geta haft veru­leg áhrif á kjör þeirra, byggðarlög og bú­setu­skil­yrði. Það hef­ur gíf­ur­leg áhrif á nærsam­fé­lagið þegar fjár­mun­ir eru flutt­ir frá sveit­ar­fé­lög­un­um til fjár­málaráðuneyt­is­ins,“ seg­ir Ad­olf Guðmunds­son.

Samið verði um lausn

Áhafn­irn­ar á fjór­um skip­um Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað taka það fram að þær styðji aðgerðir LÍÚ að öllu leyti, enda hafi ekki verið tekið neitt mark á um­sögn­um um sjáv­ar­út­vegs­frum­vörp rík­is­stjórn­ar­inn­ar. „Áhafn­irn­ar sjá fram á mikla tekju- og lífs­kjara­skerðingu ef frum­vörp­in verða óbreytt að lög­um. Áhafn­irn­ar skora því á rík­is­stjórn Íslands að setj­ast niður með hags­munaaðilum og semja um lausn sem all­ir geta verið sátt­ir við,“ seg­ir í álykt­un áhafn­anna.

Yf­ir­lýs­ing­ar áhafna þriggja skipa Eskju á Eskif­irði og FISK Sea­food á Sauðár­króki voru áður komn­ar fram en þær eru í sama anda. Einnig yf­ir­lýs­ing sjó­manna Sam­herja og Útgerðarfé­lags Ak­ur­eyr­inga sem beint er til stjórn­valda. Þar kem­ur fram að sjó­menn­irn­ir standi með fyr­ir­tæki sínu og LÍÚ. „Það er með öllu óskilj­an­legt að stjórn­völd skuli ekki setj­ast niður með hags­munaaðilum í þeirri grein sem mæðir mest á við end­ur­reisn sam­fé­lags­ins eft­ir hrun. Með því mætti kom­ast hjá fyr­ir­sjá­an­leg­um stór­áföll­um í grein­inni í framtíðinni,“ segja sjó­menn Sam­herja og ÚA í yf­ir­lýs­ingu sem samþykkt var ein­róma.

Áður hef­ur verið sagt frá fjöl­menn­um fundi land­verka­fólks og sjó­manna í Eyj­um þar sem fram kom það álit að fisk­veiðifrum­vörp­in væru óheilla­skref.

Starfs­menn fiski­mjöls­verk­smiðju Eskju segja í yf­ir­lýs­ing­unni sem vitnað hef­ur verið til að stjórn­völd og fylg­is­fólk þeirra verði að átta sig á því að á bak við þessi fyr­ir­tæki standa þúsund­ir starfs­manna og fjöl­skyld­ur þeirra sem treysta á að ör­yggi sé í rekstri og launaþróun. „Með þess­um frum­vörp­um tapa all­ir – við starfs­menn, blogg­ar­ar, álits­gjaf­ar og al­menn­ing­ur all­ur.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: