„Upphrópanir og öfgar bloggara og annarra álitsgjafa gegn fyrirtækjunum og starfsfólki þeirra eru þeim til skammar og lýsa best fáfræði þeirra. Veltum við hér í verksmiðjunni fyrir okkur hvaða hvatir liggja að baki og hvort þetta fólk hafi nokkru sinni stigið um borð í skip, inn í fiskvinnslu eða fiskimjölsverksmiðju,“ segja starfsmenn fiskimjölsverksmiðju Eskju á Eskifirði.
Áskorun þeirra er dæmi um fjölda yfirlýsinga sem Morgunblaðinu hafa borist frá starfsfólki sjávarútvegsfyrirtækjanna, í kjölfar vinnustaðafunda sem stjórnendur fyrirtækjanna hafa boðað til á meðan skipin hafa verið bundin við bryggju.
Í mörgum yfirlýsinganna er lýst yfir stuðningi við viðkomandi fyrirtæki og jafnvel aðgerðir LÍÚ og fram koma áhyggjur af afleiðingum fiskveiðifrumvarpanna fyrir fyrirtækin, afkomu starfsfólks og byggðarlögin. Einstaka ályktanir hafa borist frá félögum sjómanna og landverkafólks en þar er ýmist tekið undir áhyggjur starfsfólks af frumvörpunum eða aðgerðum LÍÚ mótmælt. Þá eru stjórnvöld hvött til samráðs við hagsmunaaðila.
Formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna er ánægður með stuðninginn. „Ég tel það mikilvægt að starfsmenn okkar sýni okkur samstöðu í því sem við erum að gera. Sjómenn og landverkafólk gera sér grein fyrir því að veiðigjöld geta haft veruleg áhrif á kjör þeirra, byggðarlög og búsetuskilyrði. Það hefur gífurleg áhrif á nærsamfélagið þegar fjármunir eru fluttir frá sveitarfélögunum til fjármálaráðuneytisins,“ segir Adolf Guðmundsson.
Áhafnirnar á fjórum skipum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað taka það fram að þær styðji aðgerðir LÍÚ að öllu leyti, enda hafi ekki verið tekið neitt mark á umsögnum um sjávarútvegsfrumvörp ríkisstjórnarinnar. „Áhafnirnar sjá fram á mikla tekju- og lífskjaraskerðingu ef frumvörpin verða óbreytt að lögum. Áhafnirnar skora því á ríkisstjórn Íslands að setjast niður með hagsmunaaðilum og semja um lausn sem allir geta verið sáttir við,“ segir í ályktun áhafnanna.
Yfirlýsingar áhafna þriggja skipa Eskju á Eskifirði og FISK Seafood á Sauðárkróki voru áður komnar fram en þær eru í sama anda. Einnig yfirlýsing sjómanna Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa sem beint er til stjórnvalda. Þar kemur fram að sjómennirnir standi með fyrirtæki sínu og LÍÚ. „Það er með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki setjast niður með hagsmunaaðilum í þeirri grein sem mæðir mest á við endurreisn samfélagsins eftir hrun. Með því mætti komast hjá fyrirsjáanlegum stóráföllum í greininni í framtíðinni,“ segja sjómenn Samherja og ÚA í yfirlýsingu sem samþykkt var einróma.
Áður hefur verið sagt frá fjölmennum fundi landverkafólks og sjómanna í Eyjum þar sem fram kom það álit að fiskveiðifrumvörpin væru óheillaskref.
Starfsmenn fiskimjölsverksmiðju Eskju segja í yfirlýsingunni sem vitnað hefur verið til að stjórnvöld og fylgisfólk þeirra verði að átta sig á því að á bak við þessi fyrirtæki standa þúsundir starfsmanna og fjölskyldur þeirra sem treysta á að öryggi sé í rekstri og launaþróun. „Með þessum frumvörpum tapa allir – við starfsmenn, bloggarar, álitsgjafar og almenningur allur.“