Brot gegn piltum falið vandamál

Frá Barnahúsi.
Frá Barnahúsi. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Gríðarlega mikið hefur áunnist þegar kemur að kynferðisbrotum gegn börnum frá árinu 1998 þegar Barnahús var sett á fót. Þekkingin sem orðið hefur til er mikil og mikilvæg og vel er staðið að málaflokknum í dag. Þó er enn falið vandamál; kynferðisbrot gegn piltum.

Á málþingi innanríkisráðuneytis og lagadeildar Háskóla Íslands sem haldið var í hádeginu í gær var fjallað um skýrslutökur barna í sakamálum. Meðal þeirra sem héldu framsöguræðu var Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi í kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en hann ræddi meðal annars um hið falda vandamál.

Kristján sagði að reynsla sín sýndi að strákar væru almennt tregari til frásagnar en stúlkur. Þeir hefðu minna stuðningsnet og segðu ekki neinum frá því ef einhver bryti gegn þeim. Hann sagði það að segja vinum sínum frá slíku jafngilda félagslegu sjálfsvígi. Innan skamms yrði það á allra vörum og frekar að því gert grín en annað.

Engu að síður sagði Kristján að strákar væru ótrúlega oft fórnarlömb kynferðisofbeldis og jafnvel til jafns við stúlkur. Kerfið gerði hins vegar ekki ráð fyrir því að spyrja þá hvort þeir hefðu orðið fyrir slíku ofbeldi. Þó svo færi að bera á hegðunarvanda hjá þeim í skóla gleymdu menn að slík brot gætu verið grunnurinn að þeim vanda.

Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi, fyrrverandi alþingismaður og tengiliður vegna vistheimila, var á meðal gesta í gær. Hún tók undir með Kristjáni og sagðist líklega hafa tekið viðtal við 250 karlmenn sem hefðu verið beittir kynferðislegu ofbeldi. Hún sagði það forboðið í samfélaginu að ræða þessi mál, og það væru mjög þung spor þessara manna að greina frá ofbeldinu sem þeir urðu fyrir.

Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is