Finnsk stjórnvöld hafa frestað því til næsta hausts að taka ákvörðun um það hvort Finnland taki þátt í norrænu samstarfi um loftrýmisgæslu við Ísland. Forseti landsins, Sauli Niinistö, og ráðherranefnd um utanríkis- og öryggismál komust að þessari niðurstöðu á fundi sem haldinn var síðastliðinn fimmtudag.
Fram kemur á fréttavef finnska dagblaðsins Helsingin Sanomat í dag að fara þurfi nánar yfir málið og meðal annars hvort þátttaka í samstarfinu kalli á breytingu á finnskum lögum. Þá fylgist Finnar náið með því hvort sænsk stjórnvöld ákveði að taka þátt í samstarfinu.
„Þetta er sameiginlegt norrænt verkefni og það skiptir miklu máli [fyrir Finnland] hvað Svíþjóð ákveður að gera,“ er haft eftir Esa Pulkkinen hjá finnska varnarmálaráðuneytinu.
Þá er þess getið að Niinistö hafi lýst því yfir í samtali við finnska ríkisútvarpið YLE að Finnar myndu aðeins taka þátt í samstarfinu ef Svíar gerðu slíkt hið sama.
Málið hefur sætt nokkurri gagnrýni í Finnlandi og hafa sumir, þar á meðal þingmenn, lýst áhyggjum sínum af því að samstarfið um loftrýmisgæslu við Ísland færði landið nær aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) en Finnar eru líkt og Svíar ekki aðilar að því.
Finnsk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir það að þátttaka í samstarfinu myndi færa Finnland nær NATO-aðild.
Frétt mbl.is: Fjórar finnskar þotur til Íslands 2015