Vilja lenda makríldeilunni

Skip­un Sig­ur­geirs Þor­geirs­son­ar, ráðuneyt­is­stjóra sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­is­ins, sem aðal­samn­inga­manns Íslands í mak­ríl­deil­unni er til marks um vilja ís­lenskra stjórn­valda til þess að ná niður­stöðu í mál­inu.

Þetta er haft eft­ir Bene­dikt Jóns­syni, sendi­herra Íslands í London, á frétta­vefn­um Fis­hnews.eu en þar seg­ir að Bene­dikt hafi fundað 13. júní síðastliðinn með for­ystu­mönn­um evr­ópskra út­gerðarfyr­ir­tækja sem stunda upp­sjáv­ar­veiðar en fund­ur­inn var skipu­lagður af hon­um ásamt þing­mann­in­um Eilidh Whiteford sem sit­ur á breska þing­inu fyr­ir Skoska þjóðarflokk­inn.

Fram kem­ur í frétt­inni að fund­ar­menn hafi nýtt tæki­færið til þess að ræða mak­ríl­deil­una á hrein­skipt­inn hátt og lýst skoðunum sín­um á stöðu mála. Þeir hafi verið sam­mála um mik­il­vægi þess að fund­in væri lausn á deil­unni sem allra fyrst.

Þar seg­ir að Bene­dikt hafi lagt áherslu á að ís­lensk­um stjórn­völd­um sé full al­vara að ná sam­komu­lagi um lausn mak­ríl­deil­unn­ar og að Evr­ópu­sam­bandið ætti að líta á skip­un Sig­ur­geirs sem aðal­samn­inga­manns sem merki um vilja Íslands til þess að lenda mál­inu.

Þá seg­ir enn­frem­ur í frétt Fis­hnews.eu að fund­ar­menn hafi verið sam­mála um að fund­ur­inn hafi verið gagn­leg­ur og að hugs­an­lega yrði fundað aft­ur næsta haust á hliðstæðum nót­um.

Eins og mbl.is greindi frá í vet­ur var ákveðið af stjórn­völd­um að Tóm­as H. Heiðar, þjóðréttar­fræðing­ur ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, skyldi hætta sem aðal­samn­ingamaður Íslands í mak­ríl­deil­unni en sú ákvörðun mætti harðri gagn­rýni meðal ann­ars frá Jóni Bjarna­syni, fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra.

Full­yrti Jón meðal ann­ars að Tóm­as hefði verið lát­inn hætta að kröfu Evr­ópu­sam­bands­ins vegna þess að hann hefði staðið of fast á kröf­um Íslend­inga en Jón lét af embætti sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra um síðustu ára­mót. Þessu hafa for­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar hafnað og lagt áherslu á að eft­ir sem áður stæði til að standa vörð um hags­muni Íslands.

Þess má geta að komið hef­ur fram í máli for­ystu­manna inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins að óleyst mak­ríl­deila gæti sett strik í reikn­ing­inn í viðræðum um sjáv­ar­út­vegs­mál vegna um­sókn­ar Íslands um inn­göngu í sam­bandið og sama hef­ur komið fram hjá ís­lensk­um ráðherr­um.

Frétt Fis­hnews.eu

mbl.is