Sagði upp á Séð og Heyrt

Lilja Katrín Gunnarsdóttir.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri Séð og Heyrt, er búin að segja upp og ráða sig sem aðstoðarmann framkvæmdastjóra Sagafilm. Hún hefur starfað á blaðinu í sex ár og setið í ritstjórastóli þess í eitt ár.

Lilja Katrín segist hafa ákveðið að fylgja stjörnuspánni. „Ég er svo flippuð að ég ákvað að fylgja bara stjörnuspánni en þar stóð  að ég ætti að stökkva á tækifæri sem myndi gefast,“ segir Lilja Katrín sem verður aðstoðarmaður Kjartans Þórs Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Sagafilm.

Hún mun ritstýra blaðinu út sumarið en þá hefur hún störf hjá Sagafilm. Á dögunum sagði Magnús Viðar Sigurðsson, framleiðandi hjá Sagafilm, upp og réð sig í vinnu til Baltasars Kormáks.

Þegar Lilja Katrín er spurð að því hvers hún eigi eftir að sakna nefnir hún samstarfsfélagana. „Hér er hlegið dátt á hverjum einasta degi. Við köllum Séð og Heyrt skemmtigarðinn því við erum með píluspjald og körfuboltaspjald og erum með mikið grín og glens alla daga. Maður á stundum erfitt með að einbeita sér því það er svo mikið stuð á fólkinu. Þetta er búið að vera eitt stórt partí en öllum partíum verður að ljúka.

Séð og Heyrt breytti um stefnu fyrir rúmlega tveimur árum og varð mýkra eða eftir að Eiríkur Jónsson var rekinn sem ritstjóri blaðsins. Lilja Katrín segir að það sé allt skemmtilegra ef allir eru sáttir. „Það er alveg hægt að gera lífið skemmtilegra þó maður sé ekki að reyna að setja upp einhverjar gildrur úti um allt. Við viljum lifa í sátt og samlyndi við mannfólkið.“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/úr einkasafni
mbl.is