„Það er augljóst mál að við getum ekki búið við löggjöf sem leiðir til mikilla erfiðleika í sjávarútvegi. Við munum beita okkur fyrir því að þessi löggjöf verði afturkölluð,“ sagði Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi, í samtali við Bæjarins besta.
Einar Kristinn segir að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér fyrir því að lögin verði endurskoðuð, komist flokkurinn í til valda á ný.
Einar telur ríkisstjórnina hafa skotið sig í fótinn við afgreiðslu frumvarpsins á þingi. „Þessi nýju lög eru ofviða sjávarútveginum, þrátt fyrir að þau hafi verið lækkuð um meira en helming. Þetta segir okkur að ríkisstjórnin hefur verið úti á túni frá upphafi í þessu máli. Þessi löggjöf mun stuðla að minni fjárfestingu í greininni. Það er í þágu almennings að sjávarútveginum gangi vel og því er algjörlega nauðsynlegt að afnema þessa löggjöf,“ segir Einar, sem segist þó hlynntur veiðigjaldi, sé því stillt í hóf. „Það er skoðun mín og Sjálfstæðisflokksins að greiða eigi gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar, og um það höfðum við forystu á sínum tíma. Útgerðin verður hinsvegar að geta ráðið við þetta gjald, og passa verður upp á að gjald sé einnig greitt af öðrum auðlindum þjóðarinnar.“
„Þessi löggjöf getur ekki staðið til frambúðar,“ segir Einar, sem telur að ríkisstjórnin hafi viðurkennt ágalla frumvarpsins með tilkomu svokallaðrar veiðigjaldsnefndar. „Allri framkvæmdinni eftir næsta fiskveiðiár er vísað inn í veiðigjaldsnefnd, þar sem ætlað er að taka allar forsendur núverandi samþykktar til gagngerðrar endurskoðunar,“ segir Einar. Aðspurður hvort sú endurskoðun verði ekki til þess að veiðigjaldið verði hækkað á ný fremur en lækkað, segist Einar ekki trúa því. „Ég trúi ýmsu upp á þessa ríkisstjórn en ég trúi því ekki að hún muni reyna að hækka gjaldið. Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær til þess áhrif munum við byrja á því að skoða hvað atvinnugreinin getur þolað og reynum að miða veiðigjaldið út frá því.“
Frétt Bæjarins besta í heild