„Mikilvægt er að sátt ríki um skattlagningu helsta grunnatvinnuvegar Íslands. Þó að lögin feli í sér ákveðna niðurstöðu er ljóst að nokkrir vankantar eru á þeim,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, um fyrstu viðbrögð sín við nýsamþykktum veiðigjöldum.
Í Morgunblaðinu í dag segir hún að með því að festa veiðigjaldið í krónutölu til eins árs sé enn verið að ýta undir óvissu innan sjávarútvegsins í stað þess að vinna að sátt til framtíðar. „Þó svo að áætlun á veiðigjöldum næstu fimm árin sé sett fram er óvissan um endanleg gjöld enn til staðar,“ segir Birna.
„Í breytingartillögunni er vissulega tekið tillit til skuldsettra útgerða en eftir sem áður er nokkuð ljóst að margar þeirra munu lenda í vandræðum með að greiða gjaldið og hætt er við því að framþróun í greininni verði takmörkuð þar sem fyrirtækin setji nýfjárfestingar á bið til að mæta aukinni skattheimtu,“ segir Birna Einarsdóttir.