Sjö útgerðarfélög með starfsemi í tíu Evrópulöndum hafa á síðustu vikum unnið eftir aðgerðaáætlun sem er ætlað að knýja Íslendinga og Færeyinga til að draga úr makrílveiði.
Lögð er sérstök áhersla á að fá Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, í lið með fyrirtækjunum og er tekið fram að beita skuli fjölmiðlum til að hafa áhrif á skoðanamótun. Þá hefur markvisst verið unnið að því að afla bandamanna gegn Íslandi og Færeyjum hjá umhverfisverndarsamtökum og á þjóðþingum í Evrópu.
Camiel Derichs, aðstoðarframkvæmdastóri MSC, alþjóðlegra umhverfisverndarsamtaka sem veita gæðavottun fyrir sjálfbærar veiðar, segir fyrirtækin sjö vilja endurheimta gæðavottun fyrir makrílafurðir sínar. Veiðar Íslands og Færeyja séu þar hindrun og er herferðinni ætlað að þrýsta á um samkomulag sem ryður henni úr vegi.
Ian Gatt, formaður skoskra útvegsfélaga í uppsjávarveiði, SPFA, er fullviss um að Evrópusambandið grípi til fyrirhugaðra refsiaðgerða gegn Færeyjum og Íslandi. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, hafi fullvissað hann um það þegar þau funduðu um málið í vor.
Gatt er þeirrar skoðunar að tengja beri ESB-umsókn Íslands og makríldeiluna saman til að þrýsta á um eftirgjöf Íslendinga í deilunni. Fyrirhugaðar refsiaðgerðir muni reynast „býsna gagnlegt tæki“ enda verði með þeim hægt að takmarka aðgang Íslendinga að evrópskum mörkuðum með sjávarafurðir.
Richard Lochhead, sem fer með sjávarútvegsmál í skosku stjórninni, hefur leitað liðsinnis norska sjávarútvegsráðherrans í „makrílstríðinu“ sem hann nefnir svo.