Sigurgeir Þorgeirsson, samningamaður sjávarútvegsráðuneytisins í makríldeilunni, segist ekkert hafa heyrt af orðsendingu Íra, og tilboð um 7,5% hlutdeild hafi ekki verið sett formlega fram.
Í orðsendingu sem sendinefnd Íra hefur sent til sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins kemur fram að makríll er að hverfa úr íslenskri efnahagslögsögu og því ber að draga til baka tilboð til Íslendinga um 7,5% hlutdeild í veiðikvóta á makríl. Frá þessu er sagt á norsku vefsíðunni Fiskebåt en ítarlega var fjallað um málið á mbl.is á laugardag.
„Það er algerlega ótímabært að draga slíkar ályktanir. Ég veit ekki á hverju þeir byggja þetta. Það er ekki hægt að segja eitt eða neitt fyrr en niðurstöður leiðangursins liggja fyrir,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, um göngu makrílsins í lögsögunni.
Starfsmenn stofnunarinnar hafi í vikunni haldið í leiðangur til að rannsaka gönguna og engin ástæða sé til þess að vera með spár um hvernig þær rannsóknir komi út áður en niðurstöðurnar liggi fyrir. Það gæti verið komið á hreint í ágústmánuði.