Flaggað í hálfa stöng í Bandaríkjunum

Kvikmyndahúsið þar sem byssumaðurinn réðst til atlögu.
Kvikmyndahúsið þar sem byssumaðurinn réðst til atlögu. AFP

Kennsl hafa verið borin á manninn sem skaut 12 manns til bana og særði 59 á miðnætursýningu á nýjustu Batman-myndinni í bænum Aurora í Colorado seint í gærkvöldi.

Um er að ræða 24 ára gamlan doktorsnema í taugavísindum, að nafni James Holmes. Talið er að hann hafi verið einn að verki. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafði James ekki komist í kast við lögin áður ef frá er talin umferðarsekt fyrir of hraðan akstur árið 2011 að sögn AFP-fréttaveitunnar.

Að sögn vitna hóf Holmes árásina í kvikmyndahúsinu með því að kasta tveimur táragassprengjum inni í salnum og hóf í kjölfarið skothríð á kvikmyndagesti. Að sögn lögreglu var maðurinn vopnaður riffli, haglabyssu og tveimur skammbyssum auk þess að vera með gasgrímu á höfði.

Viðbúnaður við heimili árásarmannsins

Þegar lögregla kom að heimili James kom í ljós að komið hafði verið fyrir ýmsum gildrum í íbúðinni, m.a. sprengigildrum en kveikiþræðir lágu um gólf íbúðarinnar. Rýmdu lögregluyfirvöld íbúðarblokkina auk fimm nærliggjandi bygginga í öryggisskyni og notast nú við stiga slökkviliðsbíla og myndavélar til að rannsaka íbúðina.

Öryggi í kvikmyndahúsum hert

Öryggi hefur verið hert í kvikmyndahúsum sem sýna nýjustu Batman-myndina, The Dark Knight Rises, víðsvegar um Bandaríkin. Þá hefur frumsýningu myndarinnar í París verið aflýst.

Flaggað í hálfa stöng næstu daga

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur fordæmt árásirnar auk þess sem hann hefur fyrirskipað að fánum við opinberar byggingar í Bandaríkjunum skuli flaggað í hálfa stöng næstu sex daga, eða til sólarlags þann 25. júlí næstkomandi, til að heiðra minningu hinna látnu.

Mynd af James Holmes.
Mynd af James Holmes. AFP
Lögreglumenn klifra upp stiga á slökkviliðsbíl upp að glugga íbúðar …
Lögreglumenn klifra upp stiga á slökkviliðsbíl upp að glugga íbúðar Holmes. AFP
Forsetinn hefur fyrirskipað að flaggað verði í hálfa stöng við …
Forsetinn hefur fyrirskipað að flaggað verði í hálfa stöng við opinberar byggingar næstu daga. AFP
Mikill viðbúnaður var við íbúð James Holmes, en sprengigildrum hafði …
Mikill viðbúnaður var við íbúð James Holmes, en sprengigildrum hafði verið komið fyrir í íbúðina til að varna mönnum inngöngu í hana. AFP
Mikill viðbúnaður er við kvikmyndahús í Bandaríkjunum sem sýna nýjustu …
Mikill viðbúnaður er við kvikmyndahús í Bandaríkjunum sem sýna nýjustu Batman myndina í kjölfar skotárásarinnar. AFP
Móðir styður dóttur sína, sem lenti í árásinni, af vettvangi.
Móðir styður dóttur sína, sem lenti í árásinni, af vettvangi. AFP
mbl.is