Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði að fjöldamorð í kvikmyndahúsi í Denver í Colorado í dag væru honum mikið áfall og hann væri afar sorgbitinn. 14 létust í árásinni og 50 særðust, þar af einhverjir alvarlega.
Í yfirlýsingu frá forsetanum sagði: „Skotárásin í Colorado er mér og Michelle mikið áfall og við erum afar döpur.“
Jafnframt var tekið fram að lögregla væri ennþá að störfum á svæðinu.
„Ríkisstjórn mín mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að styðja við íbúa í Aurora [borg við hliðina á Denver, þar sem skotárásin fór fram] á þessum hræðilegu tímum.“
„Við höfum einsett okkur að draga hvern þann sem framdi árásina til ábyrgðar, tryggja öryggi borgara okkar og annast þá sem hafa særst.“
„Eins og venjulega þegar við horfumst í augu við myrkur og áskoranir, verðum við nú að sameinast sem ein bandarísk fjölskylda.“
Skotárásin fór fram á miðnætursýningu á nýjustu Batman-myndinni, The Dark Knight Rises. John Brennan, ráðgjafi Obama í öryggismálum, gerði forsetanum viðvart eldsnemma í morgun. Forsetinn er sem stendur staddur á Palm Beach í Flórída.