Kvikmyndahúsakeðjur sem sýna nýjusta Batman myndina í Bandaríkjunum hafa aukið viðbúnað sinn og bannað andlitsgrímur og gervibyssur í kjölfar þess að 24 ára læknastúdent, James Holmes, gekk berserksgang í kvikmyndahúsi í bænum Aurora í Colorado að kvöldi fimmtudags. Skaut hann 12 manns til bana auk þess að særa 59 aðra.
Þegar lögregla hélt í nærliggjandi íbúð mannsins kom í ljós að vopnabúr sprengigildra og efnasprengja hafði verið komið þar fyrir. Notuðust lögreglumenn við brunastiga slökkvibíls til að komast að íbúðinni en fimm nærliggjandi hús auk íbúðablokkar morðingjans hafa verið rýmd í öryggisskyni. Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar mun taka næstu daga að óvirkja sprengjurnar.
32 kílómetra frá Columbine
Bærinn Aurora er tæplega 32 kílómetra frá menntaskólanum í Columbine þar sem tveir nemar skutu 13 manns til ólífis áður en þeir tóku eigið líf árið 1999. Að sögn AFP fréttaveitunnar eru foreldrar morðingjans nú í áfalli vegna gjörða sonar síns en ætla að vinna náið með lögreglunni að því að upplýsa hvers vegna hann lét til skarar skríða.
Flaggað í hálfa stöng
Árásin hefur vakið mikla sorg og reiði almennings í Bandaríkjunum. Obama forseti fordæmdi aðgerðina harðlega og fyrirskipaði að fánar við allar opinberar byggingar skyldu í hálfa stöng næstu sex daga af virðingu við fórnarlömb glæpsins.
Þá lét Bloomberg borgarstjóri New York borgar hafa eftir sér að kannski væri kominn tími á að þeir tveir einstaklingar [Barack Obama og Mitt Romney] sem sæktust eftir embætti forseta Bandaríkjanna nú um stundir, segðu þjóðinni hvernig þeir ætluðu að taka á slíkum skotárásum, sem greinilega væru orðnar vandamál í landinu.