Ekki er talið að skotárásin á gesti kvikmyndahúss í borginni Aurora í Colorado-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöldi tengist hryðjuverkasamtökum eða öfgahópum. Þetta segir talsmaður Hvíta hússins.
Lögreglan segir að 12 hafi látist og að 40 séu særðir, sumir þeirra alvarlega, en áður var talið að fleiri hefðu látist. „Lögreglan á svæðinu fer með rannsókn málsins og það eina sem við getum sagt á þessari stundu er að við teljum ekkert samhengi vera á milli þessarar árásar og hryðjuverkasamtaka af neinu tagi,“ sagði Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, í samtali við AFP-fréttastofuna síðdegis í dag.