Sprengisveit lögreglu mun reyna á ný í dag að fara inn í íbúð James Holmes, mannsins sem myrti 12 manns og særði 59 í kvikmyndahúsi í Aurora, skammt frá Denver í Coloradoríki, í fyrrakvöld. Í íbúðinni hafði maðurinn komið fyrir sprengjugildru og efnasprengju.
Nærliggjandi hús hafa verið rýmd í öryggisskyni.
Dan Oates, yfirmaður lögreglunnar á svæðinu, segist ekki hafa séð neitt þessu líkt áður. „Ég sé mikið af vírum, mikið af sprengiefni og krúsir sem eru fullar af einhvers konar vökva. Það verður vandaverk að komast þangað inn án þess að skaði hljótist af.“
Holmes hafði keypt meira en 6.000 skothylki og fjórar byssur í netverslun um tveimur mánuðum áður en hann framdi ódæðið.
Íbúar í Aurora héldu minningarvöku í gær, þar sem þeir minntust þeirra látnu. Þeirra er minnst víða um landið og að tilmælum Baracks Obama Bandaríkjaforseta verða fánar dregnir í hálfa stöng næstu sex daga.