Barack Obama Bandaríkjaforseti lofaði íbúum í Aurora í Coloradoríki í Bandaríkjunum réttlæti, en þar létust 12 og 59 særðust eftir að maður hóf skothríð í kvikmyndahúsi í fyrrakvöld.
„Alríkisstjórnin er tilbúin til að gera allt það sem nauðsynlegt kann að vera til að fá þann sem ber ábyrgð á þessum svívirðilega glæp,“ sagði Obama í vikulegu ávarpi sínu í morgun. Hann sagði ennfremur að yfirvöld myndu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi borgaranna gegn slíkum glæpum.
Obama sagði árásina grimmilega og tilefnislausa. Hann hvatti samlanda sína til að íhuga hverfulleika lífsins og að verja minni tíma í „þau ýmsu smáatriði sem svo oft vilja taka yfir líf fólks“.
„Hvernig við kjósum að koma fram hvert við annað og láta okkur annt um aðra,“ sagði forsetinn. „Hvað við gerum daglega til að gefa lífi okkar tilgang. Það er það sem skiptir máli. Þess vegna erum við hér.“