„Það er verið að grafa undan hagsmunum Íslands með þessum löndunum,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að leyfa grænlenska fiskiskipinu Eriku GR að landa hér makríl.
Friðrik benti á makrílviðræður og mögulega samninga við aðrar þjóðir um makrílinn í þessu sambandi. „Við eigum í mjög harðri baráttu fyrir hlut Íslands í makrílviðræðunum. En það mun grafa undan stöðu Íslands ef Grænlendingar koma þar með kröfur,“ sagði Friðrik.
Hann telur að það að leyfa Grænlendingum að landa hér makríl stuðli að því að þeir geti gert kröfu til hlutdeildar. Friðrik sagði það koma sér verulega á óvart að íslensk stjórnvöld skuli með þessum hætti grafa undan hagsmunum Íslands.
Í umfjöllun um makrílveiðarnar í Morgunblaðinu í dag segir Friðrik, að auðvitað hafi Grænlendingar fullan rétt bæði til að rannsaka og veiða makríl innan sinnar lögsögu.