Fréttaskýring: Viðræðurnar skammt á veg komnar

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu.
Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. mbl.is/Hjörtur

Fram kom í sam­tali frönsku sjón­varps­stöðvar­inn­ar France24 við Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, ný­verið að erfitt yrði að sann­færa Íslend­inga um að ganga í Evr­ópu­sam­bandið eins og staðan væri í dag. Hins veg­ar væri hann sann­færður um að það yrði ekki of erfitt þegar efna­hags­vanda­mál evr­unn­ar hefðu verið leyst.

Eins og staðan er í dag bend­ir hins veg­ar fátt til þess að lausn á efna­hagserfiðleik­um evru­svæðis­ins sé í sjón­máli og virðast vanda­mál svæðis­ins vera að aukast frem­ur en að tek­ist hafi að koma á þau bönd. Þá er einnig ljóst að tölu­vert langt er í land í viðræðunum um inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið enda hef­ur til þessa nær ein­göngu verið rætt um mála­flokka sem falla und­ir samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES) sem þegar hef­ur í raun verið samið um eða aðrar alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands.

Óvíst með af­drif evru­svæðis­ins

Sem kunn­ugt er hafa efna­hagserfiðleik­ar evru­svæðis­ins nú staðið yfir í þrjú ár sé miðað við árið 2009 og sér enn ekki fyr­ir end­ann á þeim. Alls óvíst er hvort og þá hvernig tak­ist að leysa þann vanda sem steðjar að svæðinu og hafa áhyggj­ur af framtíð þess frem­ur auk­ist en minnkað sam­hliða því sem fleiri evru­ríki hafa neyðst til þess að óska eft­ir ut­anaðkom­andi aðstoð.

Lausn á efna­hags­vanda evru­svæðis­ins er þannig ekki í sjón­máli enn sem komið er en flest­ir virðast þó sam­mála um að evru­svæðið geti ekki lifað af við óbreytt fyr­ir­komu­lag og að eina leiðin til þess að bjarga svæðinu sé auk­inn efna­hags­leg­ur og fjár­mála­leg­ur samruni evru­ríkj­anna. Menn grein­ir þó tals­vert á um hversu langt sé nauðsyn­legt að ganga í þeim efn­um.

Einnig eru skipt­ar skoðanir um það hversu lang­an tíma það kunni að taka evru­svæðið að ná sér aft­ur á strik ef það lif­ir af yf­ir­stand­andi efna­hagserfiðleika en flest­ir virðast þó telja að það tæki í það minnsta all­nokk­ur ár. Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands sagði þannig síðastliðið haust að það gæti tekið ára­tug að vinna bug á efna­hags­vanda svæðis­ins.

Falla nær all­ir und­ir EES-samn­ing­inn

Um­sókn Íslands um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið var send til Brus­sel sum­arið 2009 um það leyti sem efna­hagserfiðleik­ar evru­svæðis­ins hóf­ust fyr­ir al­vöru. Eins og staðan er nú hafa 18 samn­ingskafl­ar í viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið um inn­göngu Íslands verið opnaðir af þeim 35 köfl­um sem þær snú­ast um. Af þess­um 18 samn­ingsköfl­um hef­ur tíu verið lokað til bráðabirgða.

Meiri­hluti þeirra tíu samn­ingskafla sem lokað hef­ur verið falla að fullu und­ir EES-samn­ing­inn sem Ísland er þegar aðili að eða sex kafl­ar. Tveir til viðbót­ar falla að hluta til und­ir EES-samn­ing­inn og í ein­um, sem fjall­ar um rétt­ar­vörslu og grund­vall­ar­rétt­indi, hef­ur Ísland þegar inn­leitt nauðsyn­legt reglu­verk í sam­ræmi við alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar.

Ein­ung­is einn samn­ingskafli sem lokað hef­ur verið fell­ur ekki und­ir EES-samn­ing­inn eða aðrar alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands en hann snýr að ut­an­rík­is-, ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Sé litið til þeirra 18 kafla í heild sem opnaðir hafa verið eru aðeins þrír sem ekki falla und­ir EES-samn­ing­inn, að hluta til eða í heild, eða aðrar alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar lands­ins.

Ferlið gæti staðið yfir í mörg ár enn

Eins og kunn­ugt er töluðu for­ystu­menn rík­is­stjórn­ar­inn­ar upp­haf­lega um að um­sókn­ar­ferlið að Evr­ópu­sam­band­inu gæti tekið til­tölu­lega skamm­an tíma og var gert ráð fyr­ir að því yrði í það minnsta lokið áður en nú­ver­andi kjör­tíma­bil yrði á enda. Hins veg­ar hef­ur nú legið fyr­ir um nokkra hríð að um­sókn­ar­ferl­inu yrði ekki lokið fyr­ir þing­kosn­ing­ar sem fram fara í síðasta lagi næsta vor.

Ljóst er ann­ars af fram­an­sögðu að viðræðurn­ar við Evr­ópu­sam­bandið eru skammt á veg komn­ar en eins og áður seg­ir falla þeir samn­ingskafl­ar sem opnaðir hafa verið og lokað nær all­ir und­ir EES-samn­ing­inn eða aðrar alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands. Á hinn bóg­inn eru erfiðustu kafl­arn­ir eft­ir sem talið er að taka muni mest­an tíma að ræða um, en þar bera hæst sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­mál, sem og stærst­ur hluti þeirra kafla sem samn­ing­ur­inn nær ekki til.

Flest bend­ir þannig til þess að verði um­sókn­ar­ferl­inu að Evr­ópu­sam­band­inu haldið áfram eigi það eft­ir að taka mörg ár enn miðað við þann hraða sem verið hef­ur á því til þessa og þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur á þeim tíma. Ekki síst ef bíða á þess að efna­hags­vandi evru­svæðis­ins verði leyst­ur líkt og ut­an­rík­is­ráðherra virðist leggja áherslu á.

mbl.is/​Hjört­ur
mbl.is

Bloggað um frétt­ina