Portúgal annast loftrýmisgæslu

F-16 herþota á flugi. Mynd úr safni.
F-16 herþota á flugi. Mynd úr safni. AFP/Daniel Hughes

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefst á ný 13. ágúst nk. með komu flugsveitar portúgalska flughersins. Alls munu á milli sextíu og sjötíu liðsmenn portúgalska flughersins taka þátt í verkefninu og koma þeir til landsins með sex F-16 orrustuþotur.

Landhelgisgæslan greinir frá þessu og segir að gera megi ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og hugsanlega Egilsstöðum 15.-17. ágúst nk.

Þá segir Gæslan, að verkefnið sé í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland og ráðgert sé að verkefnið verði unnið með sama fyrirkomulagi og áður og í samræmi við samninga sem í gildi séu, því ljúki um miðjan september.

mbl.is