„Það virðast ekki vera neinar umtalsverðar breytingar í magni eða neitt slíkt miðað við það sem verið hefur.“
Þetta segir Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur og leiðangursstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, í Morgunblaðinu í dag um niðurstöður nýafstaðins leiðangurs þar sem makríllinn var til sérstakrar athugunar.
Við fyrstu sýn virðist því ekki sem minna magn tegundarinnar hafi gengið inn á íslenska hafsvæðið í ár en undanfarið. Var leiðangurinn farinn í þeim tilgangi að meta útbreiðslu, göngur og fæðuvistfræði tegundarinnar við Ísland. Var siglt umhverfis landið og fannst makríllinn nánast á öllu rannsóknarsvæðinu að sögn Sveins, ef frá er talið úti fyrir Norðurlandi.