Styður ekki endurskoðun ESB-umsóknar

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG.
Þráinn Bertelsson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er þessi þekkti tauga­sjúk­dóm­ur, kosn­inga­skjálfti. Eins og menn vita eru nátt­úr­lega skipt­ar skoðanir í VG um það hvort þessi aðild­ar­um­sókn sé skyn­sam­leg eða æski­leg. Ég er á því að það sé eina raun­hæfa leiðin til þess að þjóðin geti tekið upp­lýsta ákvörðun um það hvort við eig­um að vera í þessu banda­lagi eða ekki að klára þetta samn­inga­ferli. Það hef­ur ekk­ert breyst hjá mér í því.“

Þetta seg­ir Þrá­inn Bertels­son, þingmaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, í sam­tali við mbl.is aðspurður hvort hann sé sam­mála meðal ann­ars Katrínu Jak­obs­dótt­ur, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og vara­for­manni VG, og Svandísi Svavars­dótt­ur, um­hverf­is­ráðherra, um að end­ur­skoða þurfi um­sókn­ina um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið en eins og fram kem­ur í ít­ar­legri frétt um málið í Morg­un­blaðinu í dag eru í það minnsta átta af tólf þing­mönn­um VG á þeirri skoðun.

Vill að talað sé hreint út um málið

„Hjá VG hátt­ar svo til að það er svona flokkskjarni, virk­ir fé­lag­ar sem mæta á fundi og eru í öll­um ráðum og nefnd­um og eru svona flokkseig­enda­kjarn­inn. Þar er mik­ill meiri­hluti gegn Evr­ópu­sam­band­inu, ein­hver svona andúð á því mik­il fyr­ir­fram. En hins veg­ar á VG mun fleiri kjós­end­ur en þessa kannski þrjú hundruð og á meðal þeirra sem kjósa VG og eru utan þessa flokkskjarna þar eru veru­lega skipt­ar skoðanir,“ seg­ir Þrá­inn, spurður um áhyggj­ur margra flokks­fé­laga hans af því að fara í kosn­inga­bar­átt­una fyr­ir næstu þing­kosn­ing­ar með Evr­ópu­mál­in í óbreytt­um far­vegi.

„Ég get ekki bet­ur séð en að krafa um að taka upp viðræður um ákvörðun sem þegar hef­ur verið tek­in jafn­gildi því að segja upp og slíta þessu sam­starfi og ég sé enga ástæðu til þess, ekki nokkra. Mér finnst líka að fólk, sem er svona eitt­hvað að jarma til kjós­enda, það eigi bara að tjá sig skýrt. Vill það sem sagt slíta þessu stjórn­ar­sam­starfi út af þessu eða ekki?“ seg­ir Þrá­inn enn­frem­ur.

mbl.is