Evrópusambandið fylgist með umræðunni á Íslandi samhliða því sem andstaða við inngöngu í sambandið fer vaxandi og mun halda viðræðum við íslensk stjórnvöld áfram á meðan vilji er til þess að halda þeim til streitu. Þetta hefur Bloomberg-fréttaveitan í dag eftir Peter Stano, talsmanni Štefans Füle, stækkunarstjóra ESB.
„Það er á valdi Íslendinga að ákveða hvort þeir vilji halda áfram,“ segir Stano. „Ef þeir ákveða að hætta viðræðunum þá mun vitanlega enginn neyða þá til þess að halda þeim áfram.“ Fram kemur að 39 þingmenn af 63 á Alþingi séu nú andvígir því að halda viðræðunum áfram og vísað í fréttir Morgunblaðsins í því sambandi.
„Evrópusambandið sótti ekki um það að Ísland yrði aðildarríki,“ segir Stano ennfremur og bætir því við að þegar Ísland hafi „ákveðið að þeir vildu inngöngu hófum við ferlið og aðildarríkin samþykktu það að aðildarferli Íslands hæfist. Ef Ísland ákveður að hætta þá mun enginn hindra það í að gera það.“
Frétt Bloomberg-fréttaveitunnar