Svipað magn af makríl

Bráðabirgðaniður­stöður ís­lensks hluta leiðang­urs, sem hafði það að mark­miði að kanna út­breiðslu og magn mak­ríls, sýna að magn mak­ríls er svipað nú og und­an­far­in ár en nokk­ur ára­skipti eru á út­breiðslu eft­ir svæðum.

Hinn 10. ág­úst lauk 30 daga leiðangri Árna Friðriks­son­ar sem hafði það mark­mið að kanna út­breiðslu og magn mak­ríls í ís­lenskri lög­sögu. Þetta er þátt­ur í sam­eig­in­leg­um rann­sókn­um Íslend­inga, Norðmanna og Fær­ey­inga á dreif­ingu og magni helstu upp­sjáv­ar­teg­unda á æt­is­svæðum í Norðaust­ur-Atlants­hafi og um­hverfisaðstæðum þar, sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu frá Hafró.

Í ís­lenskri lög­sögu voru tekn­ar 105 tog­stöðvar, 89 sjó­rann­sókna­stöðvar og 91 átu­stöð í leiðangr­in­um. Alls var 1.174 mög­um safnað úr síld, mak­ríl og kol­munna til fæðugrein­ing­ar, þar af 609 mak­ríl­mög­um. Hjört­um úr 1.263 ís­lensk­um sum­argots­s­íld­um var safnað til grein­ing­ar á sýk­ingu sem hrjáð hef­ur þenn­an stofn. Erfðasýni úr 400 mak­ríl­um og 200 sýni voru tek­in úr mak­ríl og ís­lenskri og norsk-ís­lenskri síld til fitu­sýru­grein­ing­ar.

Úrvinnsla úr gögn­um leiðang­urs­ins er ekki lokið en helstu niður­stöður þess­ara rann­sókna munu birt­ast í sam­eig­in­legri skýrslu þeirra aðila sem að leiðangr­in­um stóðu að lokn­um fundi í lok ág­úst.

Aðeins varð vart við mak­ríl á fyrsta ári á tveim­ur stöðvum djúpt úti af Suðvest­ur­landi en þess­ir fisk­ar voru aðeins 7-9 cm lang­ir sem bend­ir til að þeir hafi komið úr klaki við Ísland. Alls feng­ust 24 fisk­teg­und­ir í leiðangr­in­um og al­geng­ast­ar voru, fyr­ir utan mak­ríl og síld, hrogn­kelsi, loðna, laxsíld­ir, sandsíli, gull­depla, vog­mær, stóra geirsíli, urr­ari og breta­hveðnir. Einn lýs­ing­ur fékkst sem ekki hef­ur sést í þess­um leiðöngr­um fyrr.

mbl.is