Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í bæjarráði Akureyrar lét bóka á fundi ráðsins í gær, að hún harmaði „þann ófögnuð sem íbúum Akureyrar var boðið upp á miðvikudaginn 15. ágúst þegar herþotur flugu lágflug yfir bæinn sem orsakaði mikið ónæði.“
Einnig segir í bókuninni að Vinstri græn mótmæli því að flugvöllurinn í bæjarlandinu sé notaður fyrir „hernaðarbrölt“. Þá er minnt á að markmið æfinganna sé að þjálfa flugmenn til hernaðaríhlutunar og jafnvel manndrápa í öðrum löndum.
Á vefmiðlinum Vikudegi er svo vitnað í orðsendingu frá Samtökum hernaðarandstæðinga á Akureyri. Í henni segir að æfingarnar séu enginn þykjustuleikur. „NATO er herskátt hernaðarbandalag vestrænna stórvelda sem vilja tryggja forræði sitt í veröldinni, einnig í norðurhöfum.
[...]
Norðurlandsdeild Samtaka hernaðarandstæðinga lýsir yfir að íslensk stjórnvöld skuli segja upp samningi við NATO um „loftrýmiseftirlit“. Það er ennfremur brýnt hagsmunamál almennings að Ísland að segi sig úr NATO.“