„Þetta eru sterkar niðurstöður fyrir okkur, sýna mikið magn og útbreiðslu makríls í lögsögunni, þannig að allar hugmyndir sem viðraðar voru í vor um að stofninn væri að ganga til baka eru þar með gufaðar upp,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Nýlegar mælingar sýna að aldrei hafi verið jafn mikið af makríl við Ísland en um 29% stofnsins í NA-Atlantshafi hafa verið í íslenskri lögsögu í sumar.
Steingrímur segir niðurstöðurnar styrkja samningsstöðu Íslendinga í makríldeilunni. Hann segir þó nauðsynlegt að rannsaka frekar hvaða áhrif makríllinn geti haft á vistkerfið við Ísland. „Þetta er mikið inngrip í lífríkið og því þurfum við rannsóknir á þessu,“ segir Steingrímur. Hann vildi ekki segja til um hvort Íslendingar mundu setja fram frekari kröfur um makrílinn en hingað til hefði verið gert.