Vísbendingar eru um að makrílstofninn í Norðaustur-Atlantshafi sé stærri en haldið hefur verið fram. Guðmundur Óskarsson fiskifræðingur segir að Alþjóðahafrannsóknaráðið byggi stofnmatið að verulegu leyti á aflatölum.
„Ef þær eru rangar, sem ýmislegt bendir til, færðu rangt stofnmat,“ segir Guðmundur.
Í fæðugöngu norður og vestur á bóginn í sumar er áætlað að makríll í íslenskri lögsögu, alls um 1,5 milljónir tonna, hafi étið um eða yfir 3 milljónir tonna. Langmest étur hann af rauðátu og er svo komið að ljósáta er orðin áberandi í fæðu síldar, en rauðáta var áður efst á matseðli hennar. Fram kemur í samtali við Guðmund í Morgunblaðinu í dag, að ýmsir halda því fram að uppsjávarstofnar í NA-Atlantshafi séu orðnir of stórir fyrir vistkerfið.