Verða Íslandi og Færeyjum boðin 14% kvótans?

Fram kem­ur á frétta­vef norska sjáv­ar­út­vegs­blaðsins Fiskar­en að sam­kvæmt heim­ild­um blaðsins leggi Evr­ópu­sam­bandið mikla áherslu á að sam­komu­lag ná­ist í mak­ríl­deil­unni á fundi deiluaðila í London í dag en þrýst­ing­ur sé á það inn­an sam­bands­ins meðal ann­ars vegna um­sókn­ar Íslands um inn­göngu í það.

Þá seg­ir að síðasta boð Evr­ópu­sam­bands­ins og Nor­egs til Íslend­inga og Fær­ey­inga hafi verið 14% af mak­ríl­kvót­an­um sam­an­lagt en því hafi áður verið hafnað af þeim. Hins veg­ar bendi margt til þess að full­trú­ar Íslands og Fær­eyja séu nú reiðubún­ir að samþykkja það boð sem myndi þá skipt­ast jafnt á milli land­anna eða 7% fyr­ir hvort land. Íslend­ing­ar hafa hingað til farið fram á 16% kvót­ans.

Enn­frem­ur seg­ir að þá fengju Íslend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar einnig ákveðinn aðgang að efna­hagslög­sög­um Nor­egs og Evr­ópu­sam­bands­ins, en yrði þetta niðurstaðan myndi kvóti Norðmanna minnka um 3%. Þá er því haldið fram að mak­ríl­gengd bæði við Ísland og Fær­eyj­ar sé minni en und­an­far­in ár en það kem­ur þó ekki heim og sam­an við rann­sókn­ir haf­rann­sókna­stofn­ana Íslands, Nor­egs og Fær­eyja í sum­ar.

Frétt Fiskar­en

mbl.is