Fram kemur á fréttavef norska sjávarútvegsblaðsins Fiskaren að samkvæmt heimildum blaðsins leggi Evrópusambandið mikla áherslu á að samkomulag náist í makríldeilunni á fundi deiluaðila í London í dag en þrýstingur sé á það innan sambandsins meðal annars vegna umsóknar Íslands um inngöngu í það.
Þá segir að síðasta boð Evrópusambandsins og Noregs til Íslendinga og Færeyinga hafi verið 14% af makrílkvótanum samanlagt en því hafi áður verið hafnað af þeim. Hins vegar bendi margt til þess að fulltrúar Íslands og Færeyja séu nú reiðubúnir að samþykkja það boð sem myndi þá skiptast jafnt á milli landanna eða 7% fyrir hvort land. Íslendingar hafa hingað til farið fram á 16% kvótans.
Ennfremur segir að þá fengju Íslendingar og Færeyingar einnig ákveðinn aðgang að efnahagslögsögum Noregs og Evrópusambandsins, en yrði þetta niðurstaðan myndi kvóti Norðmanna minnka um 3%. Þá er því haldið fram að makrílgengd bæði við Ísland og Færeyjar sé minni en undanfarin ár en það kemur þó ekki heim og saman við rannsóknir hafrannsóknastofnana Íslands, Noregs og Færeyja í sumar.