Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir Evrópusambandið og Norðmenn hafa nálgast makríldeiluna af ótrúlegri frekju. Bæði með því að taka sér einhliða veiðiheimildir sem svari til 90% af ráðlögðum kvóta og ennfremur með ítrekuðum hótunum um viðskiptaþvinganir.
„Þær hótanir hafa ekki bara reynst orðin tóm, því að ESB hefur undirbúið sig sérstaklega fyrir það að geta beitt slíkum hótunum. Við því er að búast að ESB þingið samþykki reglur um refsingu sem beita megi okkur og Færeyinga nú síðar í mánuðinum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á heimasíðu sinni.
Hann segir ennfremur að það hafi ekki komið á óvart að ekki næðust samningar á ráðherrafundinum í London í gær þar sem freistað var þess að ná samkomulagi um makrílveiðarnar. Deilan hafi farið harðnandi undanfarna mánuði sem sé afleiðing óskammfeilni Evrópusambandsins og Noregs og lítt dulbúnum hótunum þeirra.
„Raunar má segja að það hefði orðið óvænt ef við hefðum séð einhvern marktækan árangur af þessum viðræðum, eins og nú er í pottinn búið,“ segir Einar og ennfremur að málefnastaða Íslendinga styrkist stöðugt í ljósi vísindalegra rannsókna sem bendi meðal annars til þess að makríllinn sé farinn að hrygna innan íslensku efnahagslögsögunnar.
„Þegar allt þetta er skoðað er auðvitað ekki von á góðu, frá viðsemjendum okkar. En við hljótum að standa á rétti okkar, ábyrg fiskveiðiþjóð sem hefur í áranna rás verið boðberi ábyrgra veiða. Tilraun viðsemjenda okkar til þess að ófrægja okkur með ósönnum staðhæfingum um annað mun ekki takast,“ segir hann.
Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar