Makrílvertíð ársins er langt komin og eftir er að veiða um tólf þúsund tonn af tæplega 150 þúsund tonna kvóta. Útgerðarmaður sem rætt var við í gær sagði að ekkert lát hefði verið á veiðum síðan í júnímánuði og veður verið með eindæmum gott þar til í gær.
Veiðar og vinnsla hefðu gengið jafnt og þétt í allt sumar. Makríllinn hefur veiðst norðarlega upp á síðkastið og hafa skipin meðal annars verið að veiðum djúpt út af Héraðsflóa. Ekkert fararsnið virðist vera á makrílnum sem þar hefur verið.
Í umfjöllun um makrílveiðina í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að útgerðir uppsjávarskipa geyma heimildir í makríl til að nýta með norsk-íslensku síldinni, en veiðar á henni taka nú við af auknum krafti. Útlit er fyrir að gott verð fáist fyrir síldarafurðir í vetur, en makríll gaf hins vegar nokkuð eftir í ár miðað við það verð sem fékkst í fyrra.