2.000 sjúklingar á biðlistum LSH

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut.

„Það er áhyggjuefni að við höfum ekki náð markmiði okkar um að fækka á biðlistum.  Núna eru um 2.000 sjúklingar á biðlistum spítalans. Það er nokkur fjölgun frá því 1. janúar sl. þvert á  markmið okkar um að fækka verulega á biðlistunum,“ skrifar Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans í föstudagspistli sínum á heimasíðu spítalans. Markmiðið var að ekki fleiri en 1.220 manns væru á biðlista eftir þjónustu spítalans.

Björn segir þó hægt að gleðjast yfir því að tekið hafi að fækka spítalasýkingum í 6,1% og þar með nálgast það markmið að fækka þeim niður í 5%. Segir Björn að á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndunum sé sýkingarhlutfallið oft í kringum 9-10%.

Í dag voru birtar starfsemistölur Landspítalans fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Björn segir að margt hafi gengið vel og árangri verið náð en að markmið ársins séu mjög metnaðarfull. Hann bendir á að eins og fram hafi komið hafi spítalinn verið rekinn með 84 milljóna króna halla fyrstu sex mánuði ársins. „Bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu sjö mánuði ársins bendir til þess að hallinn minnki hægt og sígandi, í samræmi við endurskoðaða áætlun okkar frá því í maí,“ skrifar Björn.

Í næstu viku verður fjárlagafrumvarp ársins 2013 lagt fram og Björn segir að áhugavert verði að sjá hvaða tölur verða í því frumvarpi fyrir Landspítalann. 

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Ernir
mbl.is