Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands segir það skjóta skökku við á tímum aðhalds í ríkisfjármálum, sem einkum hafi beinst að Landspítalanum, að laun eins starfsmanns spítalans séu hækkuð fyrirvaralaust.
Mikil óánægja er meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Landspítalanum vegna hækkunar á launum forstjóra sjúkrahússins og hafa uppsagnir verið nefndar í þessu sambandi. Að auki hefur starfsmannafélag Landspítalans gagnrýnt þessa launahækkun og segir félagið hana ekki hafa komið fram á réttum tíma.
„Laun ríkisstarfsmanna eru samkvæmt nýlegum könnunum 20% lægri en á almennum vinnumarkaði. Konur eru í meirihluta heilbrigðisstarfsmanna og er Landspítalinn stærsti vinnustaður þeirra. Öll viljum við vera metin að verðleikum og öll getum við fengið betur launaða vinnu erlendis. Að taka einn starfsmann fram yfir annan á svona grófan hátt finnst stjórn Ljósmæðrafélagsins mjög óeðlilegt og verulega vegið að störfum félagsmanna sinna hjá Landspítalanum,“ segir í tilkynningu frá Ljósmæðrafélagi Íslands.
Frétt mbl.is: Ekki réttur tími fyrir launahækkun