„Þarna hefur náðst sátt um veigamikil atriði, en um önnur grundvallaratriði gat aldrei orðið samkomulag,“ segir Einar K. Guðfinnsson, einn fjögurra þingmanna í trúnaðarmannahópi stjórnmálaflokkanna um kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Þannig er samkomulag um að falla frá ákvæði, sem var í lagafrumvarpi um stjórn fiskveiða í fyrravetur, um að banna framsal aflaheimilda algerlega frá árinu 2032. „Í heildina skiptir það mestu máli að í yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna skuldbinda þau sig til að leggja frumvarpið fram með þeim breytingum, sem við yrðum ásáttir um,“ segir Einar.
Vísar hann þar til orða í yfirlýsingu oddvita ríkisstjórnarinnar við þinglok 18. júní þess efnis að „náist samkomulag á þessum vettvangi mun það verða lagt til grundvallar framlagningu frumvarps um stjórn fiskveiða af hálfu stjórnarflokkanna á nýju þingi í haust.“
Í yfirlýsingu oddvita ríkisstjórnarinnar segir að trúnaðarmannahópur fulltrúa stjórnmálaflokkanna, sem hafi unnið með frumvarp um stjórn fiskveiða muni halda þeirri vinnu áfram og ljúka störfum með samantekt eða greinargerð.
Í sameiginlegri greinargerð starfshópsins, sem kynnt var á fundi atvinnuveganefndar í gær, er fjallað um álit hópsins á fyrirfram skilgreindum deiluefnum og koma þar fram margvíslegar athugasemdir og áherslur. Í starfshópnum voru Kristján Möller, Björn Valur Gíslason, Einar K. Guðfinnsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Auk þeirra sitja í atvinnuveganefnd þingsins Ólína Þorvarðardóttir, Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þór Saari og Jónína Rós Guðmundsdóttir.
Einar K. Guðfinnsson segist gera ágreining um veigamikil mál í greinargerð starfshópsins og nefnir fyrst andstöðu við hugmyndina um kvótaþing eins og hún hafi verið sett fram. Hann segir of mikið sett í pott 2 og leigupotturinn sem þar sé að finna sé alltof stór. Auk þess sem slíkt leigupottakerfi ríkisins eigi ekki að vera í lögunum.
Einnig segir hann það sína skoðun að í frumvarpinu eigi að byggja á samningaleið, en ekki veiðileyfaleið.
Hins vegar hafi verið samkomulag í starfshópnum um að falla frá afnámi framsals eftir 20 ár eins og áður er nefnt. Einnig var sátt um að skilgreina skyldi ákveðið magn í flokk 2 og það yrði sett í hlutdeild þannig að magnið ykist með vaxandi kvótum en minnkaði þegar aflaheimildir yrðu minni. Í upphaflegu frumvarpi hafi verið margvísleg ákvæði sem hefðu gert það að verkum að potturinn gæti stækkað verulega umfram þau 16, 18 og 20 þúsund tonn sem miðað var við á ákveðnu árabili.
Einnig hafi nú verið fallið frá því að þeir sem selja frá sér aflahlutdeild greiddu 3% af sölukvótanum til ríkisins og þessi hlutdeild færi í flokk 2. Sömuleiðis væri fallið frá svokallaðri stillimynd, sem hefði einnig aukið heimildir í flokki 2.
Rækju- og skelbætur hafi átt að falla alveg niður en samkomulag hafi verið um að þær yrðu áfram.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, vísar til föðurhúsanna ásökunum um að trúnaðarmannahópur formanna stjórnmálaflokkanna hafi verið sjálfskipaður. Slíkar yfirlýsingar séu byggðar á misskilningi því formenn flokkanna hafi þvert á móti tilnefnt hver sinn fulltrúa. Í störfum hópsins hafi verið unnið af mikilli trúmennsku og í samræmi við yfirlýsingu oddvita ríkisstjórnarinnar.
Þar hafi nákvæmlega verið tíundað hver verkefni hópsins væru. Aðeins í einu tilviki hefði verið brugðið út frá því, en hópurinn fór þess á leit við sjávarútvegsráðherra í síðasta mánuði að gerð yrði fagleg og fræðileg úttekt á strandveiðum.
Atvinnuveganefnd hefði síðan fengið skýrslu um störf hópsins í gærmorgun eða við fyrsta tækifæri. Kristján segist ekki hafa starfað í hópnum sem formaður atvinnuveganefndar heldur hafi hann verið skipaður beint af Jóhönnu Sigurðardóttur. Sérstakur formaður hafi ekki farið fyrir starfinu í trúnaðarmannahópnum.
Í skilabréfi hópsins til ráðherra komi fram skoðanir fjórmenninganna og þær bindi hvorki aðra þingmenn né þingflokka. Það sé síðan ráðherra að ákveða framhaldið.
Kristján segist ekki hafa miklar áhyggjur af bókun Þórs Saari og kvörtun til forsætisnefndar. Þór hafi skrifað nefndinni bréf og sagt sig frá störfum hópsins. Skoðanir hans hafi komið fram á fundum hópsins á fyrri stigum og í samtölum við hann síðar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á sæti í atvinnuveganefnd og lýsir hún sig mótfallna og um leið óbundna af hugmyndum fjórmenninganna. Í bloggi sínu í gær undir fyrirsögninni Átakafundur í atvinnuveganefnd kemur fram að auk hennar hafi Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þór Saari lagt fram bókanir þar sem tildrög hópsins og vinnuaðferðir séu gagnrýndar, sem og þau efnisatriði sem hópurinn hefur unnið út frá.
„Sá hópur fjögurra þingmanna sem hér leggur fram greinargerð sína hefur ekki hlotið umboð atvinnuveganefndar Alþingis né heldur þingflokka stjórnarflokkana til sinna starfa. Hópurinn er sjálfskipaður hluti nefndarmanna í atvinnuveganefnd sem fengið hefur samþykki forystumanna ríkisstjórnarinnar til þess að leita niðurstöðu sín á milli um fiskveiðistjórnunarfrumvarp atvinnuvegaráðherra sem sátt geti náðst um,“ skrifar Ólína.
Hún gagnrýnir 20 ára forgangsúthlutun 95% aflaheimilda til núverandi kvótahafa, takmarkanir á vaxtarmöguleikum leigupottsins við 20 þús. tonn og segir óviðunandi að í uppsjávar- og úthafsveiðum deilistofna „verði komið á samskonar gjafakvótakerfi og því sem viðgengist hefur í botnfiskveiðum, eins og tillögur hópsins gera ráð fyrir“.
Þá segir að „verði þær breytingar á fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu sem fjórmenningarnir hafa drepið á er ljóst að upphaflegt markmið með frumvarpinu – um jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðunarmöguleika – yrði að engu. Væri þá verr af stað farið en heima setið með mál þetta í heild sinni.“
Á fundi atvinnuveganefndar í gær mótmælti Þór Saari harðlega vinnubrögðum formanns hópsins „sem hefur tekið að sér að stýra fundi hennar þrátt fyrir óafgreitt erindi til forsætisnefndar um vanhæfi hans sem formanns vegna brots á samkomulagi formanna stjórnmálaflokkana um þinglok og kröfu um afsögn hans sem formanns nefndarinnar,“ segir í bókun Hreyfingarinnar um vinnubrögð í nefndinni.
„Framganga formanns atvinnuveganefndar í þessu máli er Alþingi, atvinnuveganefnd og formanninum sjálfum til vansa og hann og þeir þrír þingmenn sem tóku þátt í þessari vinnu... eiga að biðja Alþingi opinberlega afsökunar á framkomu sinni í þessu máli,“ segir í bókuninni.
Haft var eftir Birni Val Gíslasyni fyrir nokkru að Þór hefði lýst því yfir á fundi í sumarbyrjun að hann myndi ekki taka þátt í störfum hópsins enda teldi hann hópinn ekki hafa þinglegt umboð til að starfa. Björn Valur sagði einnig þá að það væri tæpast við hæfi að færa menn til fundar í böndum og gegn þeirra vilja.