Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, telur að niðurstaða trúnaðarmannahóps stjórnmálaflokka um stjórn fiskveiða sé ekki bindandi við endurskoðun fiskveiðifrumvarpsins. Fara þurfi yfir niðurstöðuna en mikið vanti á að heildarsamkomulag hafi náðst í hópnum.
Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við RÚV á laugardag að greinargerðin væri ekki grundvöllur að samkomulagi á milli flokkanna um breytingar á fiskveiðistjórn.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, sem sat í trúnaðarmannahópnum, sagði oddvita stjórnarflokkanna hafa gefið afdráttarlausa yfirlýsingu í sumar um að það sem næðist samkomulag um í hópnum yrði lagt til grundvallar frumvarpi um stjórn fiskveiða í haust.
Aðspurður hvort ekki hefði verið átt við heildarsamkomulag segir Einar í Morgunblaðinu í dag, að það hefði verið borin von að ná því.