Framlög til viðhalds tækja og búnaðar á Landspítalanum, auk nýframkvæmda, eru ekki verðbætt frekar en fyrri ár í nýju fjárlagafrumvarpi. Í ár fara til dæmis til tækjakaupa 262 milljónir króna og í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er nákvæmlega sama krónutala ætluð í þetta. Vonandi sér Alþingi sér fært að veita meira fé í þennan málaflokk. Þetta kemur fram í pistli Björns Zoëga, forstjóra LSH, á heimasíðu sjúkrahússins.
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 lagt fram á Alþingi síðastliðinn þriðjudag. Í því kemur fram að ráðuneytum og flestum stofnunum ríkisins er ætlað að draga saman reksturinn um 1,75% frá fjárlögum ársins 2012. Þó er gerð lægri niðurskurðarkrafa í ýmsum velferðarmálaflokkum og grunnþjónustu eða frá 0,5-1,2%.
„Hins vegar eru sjúkrahús, heilsugæsla og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir undanþegnar frá niðurskurðarkröfu í frumvarpinu. Það er fagnaðarefni fyrir okkur og er með því ákveðnum tímamótum náð í rekstri spítalans á þessum niðurskurðartímum sem hafa verið síðustu ár. Frumvarpið gefur okkur einnig ákveðnar launa- og verðlagsbætur þannig að í raun og veru hækkar ríkisframlagið til Landspítalans um 14-32 milljónir króna en það skýrist af umsömdum launahækkunum á árinu og ákveðnum forsendum við hækkun verðlags,“ skrifar Björn.
„Framlög til viðhalds tækja og búnaðar, auk nýframkvæmda, eru ekki verðbætt frekar en fyrri ár. Í ár fara til dæmis til tækjakaupa 262 milljónir króna og í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er nákvæmlega sama krónutala ætluð í þetta. Vonandi sér Alþingi sér fært að veita meira fé í þennan málaflokk. Eins og þið vitið best sjálf, og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum, er lágmarksþörfin mun meiri en nemur þessari upphæð og þá er bara miðað við að geta haldið í horfinu næstu árin,“ segir Björn í pistli sínum.
Nú fer fram vinna innan spítalans við að skipta fjárheimildum og ákveða í hvaða verkefni féð verður notað. Það verður kynnt betur fyrir stjórnendum spítalans og starfsfólkinu á næstu dögum.