„Við teljum að þetta sé ráð í óráði og erum ánægð með að þarna hafi verið sýndur kjarkur til að snúa til baka af þeirri braut sem lagt var út á,“ segir Kristín Guðmundsdóttir, formaður Félags sjúkraliða um þá ákvörðun Björns Zoëga forstjóra Landspítala og Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra að falla frá launahækkun til forstjórans.
Sjúkraliðar gagnrýndu launahækkunina harðlega líkt og aðrar fagstéttir heilbrigðisgeirans. Benti Kristín á að alls staðar væri undirmannað, sem þýddi aukið álag á starfsfólk, tækin á sjúkrahúsunum væru plástruð og störfin þung. Sjúkraliðar væru langþreyttir og þætti nóg komið.
Vandamálin mörg á spítalanum
Aðspurð hvort ákvörðun forstjórans nú muni duga til að lægja að sinni reiðiölduna innan spítalans segist hún vona það. „Vegna þess við eigum nógu erfitt með þetta heilbrigðiskerfi þótt allt sé ekki í upplausn. Að því leyti vona ég að þetta verði til þess að fólk nái að vinna saman, en hins vegar eru vandamálin mjög mörg sem þarf að skoða, burtséð frá þessari ákvörðun. Það snýst um hvernig líðan fólks er á vinnustað, vinnuvernd og annað.“
Kristín segir að sér hafi borist fjölmörg erindi í gær frá starfandi sjúkraliðum á Landspítalanum sem útlistuðu ástandið á deildum, vinnuaðstöðu og líðan þeirra í vinnunni. Hún telur því að atburðir síðustu tveggja vikna muni hafa áhrif á kjarabaráttuna. „Ég held að þetta verði til þess að fólk fari virkilega að undirbúa sig fyrir komandi kjarasamninga og herði kröfurnar.“
Alvarlegt ástand
Núverandi kjarasamningar gilda til ársins 2014 en Kristín segir að margt þurfi að bæta annað en bara launin Stéttin sé að eldast og nýliðun sé mjög lítil. Fæstir fái 100% vinnu jafnvel þótt þeir vilji þar sem það henti ekki stofnunum að skipta niður störfunum. Mikið sé um að fólk fái ekki greitt fyrir aukatíma heldur eigi að taka þá út í fríi síðar.
„Þannig að það er mjög margt sem þarf að taka til endurskoðunar. Þetta er orðið mjög alvarlegt ástand og ég hef fulla trú á því að það sem nú er búið að róta upp verði til þess að fólk fari virkilega að gera kröfur og stéttafélagið mun styðja við bakið á því.“