Trúnaðarbresturinn er staðreynd

Hjúkrunarfræðingar héldu tvo fjölmenna fundi um kjör starfsfólks spítalans í …
Hjúkrunarfræðingar héldu tvo fjölmenna fundi um kjör starfsfólks spítalans í liðinni viku. Mbl.is/Árni Sæberg

„Eins og þetta horfir við mér þá snerist málið um þann trúnaðarbrest sem varð milli forstjórans og hjúkrunarfræðinga og það að launahækkunin gangi til baka, það lagar ekki þennan trúnaðarbrest,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga.

Plástur á sárið en lagar ekki meinið

Björn Zoëga forstjóri Landspítalans hefur ákveðið að afþakka launahækkun um 450 þúsund krónur á mánuði sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra bauð honum í ágúst. Tvær vikur eru liðnar síðan fyrstu fregnir spurðust út af launahækkuninni og hefur magnast upp vaxandi óánægja meðal starfsfólks spítalans.

„Ég held að menn séu því miður að bregðast við of seint. Hugsanlega er þetta plástur á sárið hjá einhverjum, en það lagar ekki meinið og ég tel að þetta bæti ekki það ástand sem hefur skapast,“ segir Elsa. 

„Ef þetta hefði komið strax þá hugsanlega hefði málið ekki orðið eins alvarlegt og raun ber vitni. En þegar líður hálfur mánuður og bæði ráðherra og forstjóri eru búnir að koma fram og réttlæta þessa aðgerð og færa fyrir henni rök í fjölmiðlum, þá er að mínu mati orðið of seint að bæta þann skaða sem orðið hefur. Trúnaðarbresturinn er staðreynd.“

Unna forstjóranum samkeppnishæfra launa

Elsa bendir á að hjúkrunarfræðingar hafi ekki krafist þess að launahækkunin yrði dregin til baka. Staðreyndin sé sú að erfitt sé að starfa þar sem rof hafi orðið á trausti milli stjórnenda og starfsfólks. 

„Ég held að hjúkrunarfræðingar geti alveg unnt Birni Zoëga þess að vera með há laun og samkeppnishæf við aðra forstjóra hér á Íslandi og erlendis. Því það er auðvitað það sem við viljum líka fyrir okkar fólk. Ég út af fyrir mig fagna því bara að reynt sé að hafa forstjóra þessarar stóru stofnunar á viðlíka launum og tíðkast á almennum markaði og erlendis. Það á bara við um svo marga, og það breytist ekki.“

Slá ekki af sínum kröfum

Samningafundur verður vegna stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga í næstu viku, föstudaginn 28. september. Hjúkrunarfræðingar afhentu samninganefndunum í gær ályktum með kröfum um bætt kjör, þar sem m.a. var farið fram á 90 þúsund króna launahækkun nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga. 

Aðspurð segist Elsa ekki getað svarað því hvernig aðgerðarhópur hjúkrunarfræðinga, sem setti kröfurnar fram, muni bregðast við. „En frá mínum bæjardyrum séð þá höldum við okkar striki við gerð stofnanasamnings og gerum auðvitað kröfur um kjarabætur fyrir hönd hjúkrunarfræðinga.“

Björn afþakkar launahækkunina

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga. Mbl.is/Golli
mbl.is