Fæstir deyja eftir skurðaðgerð á Íslandi

Skurðaðgerð framkvæmd á Landspítalanum.
Skurðaðgerð framkvæmd á Landspítalanum. mbl.is/ÞÖK

Fæstir sjúklingar deyja í kjölfar skurðaðgerða á Íslandi eða 1,2% að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem birt verður í tímaritinu Lancet á morgun. Rannsóknin náði til 498 sjúkrahúsa í 28 Evrópulöndum. Flest dauðsföll í kjölfar skurðaðgerða verða í Lettlandi og er hlutfallið þar 21,5%. Vikmörk eru 1-3%. Vísindamennirnir sem framkvæmdu rannsóknina segja fleiri deyja í Evrópu eftir skurðaðgerð en áður hefur verið talið.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir þetta í takt við aðrar svipaðar rannsóknir. Hann bendir á að OECD taki saman tölur um lifun eftir t.d. kransæðastíflur og heilablóðfall reglulega og að Ísland hafi hingað til komið mjög vel út í slíkum samanburði.

Rannsóknin í Lancet er ítarleg en hún var framkvæmd af evrópskum samtökum um gjörgæslu- og svæfingarlækningar (European Society of Intensive Care Medicine og European Society of Anaesthesiology). Í rannsókninni voru gögn um 46.539 sjúklinga á 7 daga tímabili í apríl 2011 skoðuð. 1.855 þeirra eða 4% létust áður en þeir voru útskrifaðir af sjúkrahúsi í kjölfar skurðaðgerðar. 8% sjúklinganna voru lögð inn á gjörgæslu eftir aðgerð.

Björn segir að þessi rannsókn sýni að Ísland standi vel að vígi í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir um hvernig sjúklingum farnist eftir skurðaðgerð. „Við höfum góða heilbrigðisþjónustu sem er persónuleg og þar sem nálægðin skiptir máli,“ segir Björn um skýringar á því að Ísland skari framúr í þessum efnum. „Í gildum Landspítalans, sem er ekki venjulega í gildum stórra sjúkrahúsa, er til að mynda orðið umhyggja.“

Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á að útskrifa sjúklinga fyrr af sjúkrahúsum en áður tíðkaðist. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar í Lancet kemur það ekki niður á sjúklingum á Íslandi hvað varðar skurðaðgerðir. „Það er eitthvað sem verður stöðugt að leita jafnvægis í,“ segir Björn. „Við höfum ekki gengið jafn langt og mörg önnur lönd hvað þetta varðar og við getum því ekki séð að þetta hafi áhrif hérna ennþá.“

Björn segir að LSH hafi það að markmiði að ekki fleiri en 11% sjúklinga þurfi að leggjast aftur inn á sjúkrahúsið eftir skurðaðgerðir innan 30 daga. Í dag er staðan sú að 12% sjúklinga þurfa að leggjast eftir inn eftir aðgerð. „Við erum því mjög nálægt markmiðinu,“ segir Björn. „Þetta er á við það sem gerist best í heiminum. Þannig að þó að það sé pressa á að útskrifa fólk fyrr þá hefur það ekki breytt þessum tölum.“

mbl.is