Það hafa sparast 32 milljarðar. Framleiðni starfsfólks hefur aukist. Starfsfólki hefur fækkað, þó ekki sérfræðingum nema að litlu leyti. Öryggi sjúklinga hefur ekki verið ógnað, svo vitað sé. Um þetta er fjallað í föstudagspistli forstjóra Landspítalans.
Frá árinu 2007 hefur spítalinn þurft að skera sig niður um 23%. Mestur var niðurskurðurinn á árunum 2009 og 2010 en árin 2008, 2011 og 2012 var einnig niðurskurður. „Samtals er þessi niðurskurður á föstu verðlagi 2011 orðinn á þessu ári 9 milljarðar, þ.e.a.s. við rekum okkur árið 2012 fyrir rúmlega 9 milljarða lægri upphæð en við gerðum árið 2007. Ef sparnaður síðustu fimm ár með árinu 2012 er lagður saman fáum við út tölu sem er rúmir 32 milljarðar, sem er hærra en það framlag sem ríkið leggur spítalanum til í ár,“ skrifar Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, í pistli sínum.
„Þessi árangur er frábær og er eins og oft hefur verið sagt samhent verk allra starfsmanna. Þetta hefur verið gert með því að fá meiri framleiðni frá starfsfólki, mælt samkvæmt norskri aðferðafræði 9% meiri framleiðni og svo höfum við einnig náð að nýta okkar almennu rekstrargjöld töluvert mikið betur en áður (18%). Þessi frábæri árangur hefur að því er virðist náðst án þess að öryggi sjúklinga hafi verið ógnað, svo vitað sé. Þetta hefur líka náðst með samstilltu átaki starfsmanna hvort sem þeir vinna við umönnun sjúklinga eða annars staðar á spítalanum.
Það sem er einnig áhugavert að sjá er að á þessum sama tíma höfum við fækkað starfsmönnum á spítalanum, frá 5.200 niður í rúmlega 4.500 eins og þeir eru núna. Þrátt fyrir þessa fækkun starfa nánast jafnmargir sérfræðingar á spítalanum núna eða 317, miðað við 320 árið 2007. Fjöldi starfandi hjúkrunarfræðinga er einnig nær óbreyttur á þessu árabili. Enn og aftur tölur sem þið þekkið að einhverju leyti og enn og aftur tölur sem þið getið verið stolt af og enn og aftur er sagt að þjónustan hafi breyst og að þetta hafi verið erfitt og það dylst engum. Við höldum áfram að gera það sem við viljum helst af öllu og er okkar hjartans mál, þ.e.a.s. að hugsa um sjúklingana okkar og sjá til þess að þeir fái þá þjónustu sem þeir þurfa, á öruggan hátt,“ skrifar Björn.