Læknaráð Landspítalans segir stefna í óefni í tækjamálum spítalans. Endurnýjun á tækjabúnaði hafi setið á hakanum í þeim mikla niðurskurði sem sjúkrahúsið hefur þurft að þola undanfarin ár.
Ályktun læknaráðs í heild:
Niðurskurðarkrafan á Landspítala hefur verið mikil hin síðustu ár og starfsemin líður fyrir hið skerta fjármagn. Eðlilegt viðhald og endurnýjun á tækjabúnaði spítalans hefur setið á hakanum og stefnir í óefni í þessum málum.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 er það fjármagn sem áætlað er til viðhalds tækja og búnaðar ekki verðbætt frekar en fyrri ár og er því um skerðingu að ræða þó upphæðin sé óbreytt. Kostnaður við tækjakaup á forgangslista spítalans í dag eru rúmar 800 milljónir. Sem fyrr nægja þær 262 milljónir sem áætlaðar eru til tækjakaupa engan veginn til að mæta bráðri þörf spítalans fyrir nauðsynlegum tækjum. Hér er bæði þörf á nýjum tækjabúnaði til að mæta eðlilegri þróun læknavísinda og endurnýjun á gömlum tækjum sem eru ekki lengur nothæf.
Læknaráð Landspítala skorar á Alþingi Íslands að endurskoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013 og tryggja nauðsynlega fjárveitingu til tækjakaupa og viðhalds á þeim búnaði sem er til staðar á Landspítala.