Lífeindafræðingar á Landspítalanum funduðu um ástand velferðarkerfisins á Íslandi og málefni starfsmanna spítalans í dag. Í ályktun sem samþykkt var á fundinum segir að sífelldur fjárskortur til spítalans hafi bitnað illilega á lífeindafræðingum og stofnanasamningar ekki fengist endurskoðaðir í 5 ár, þrátt fyrir ákvæði um árlega endurskoðun.
„Skortur er á lífeindafræðingum um öll Norðurlönd og fjölmörg atvinnutækifæri bjóðast erlendis. Nýliðun í stétt lífeindafræðinga hefur verið viðvarandi vandamál um langt skeið og Landspítali hefur ekki brugðist við á neinn hátt,“ segir í ályktun fundarins.
„Fundurinn vekur athygli á að byrjunarlaun lífeindafræðings eftir 4 ára háskólanám eru 259.694 kr. Við fögnum því að velferðarráðherra hefur fundið möguleika til þess að bæta launakjör starfsmanns spítalans og teljum að það hljóti að vera upphaf þess að leiðrétta þá launaskerðingu sem lífeindafræðingar urðu fyrir vegna skipulagsbreytinga 2009.
Jafnframt styðjum við hógværa kröfu hjúkrunarfræðinga um 90.000 króna hækkun byrjunarlauna og krefjumst þess sama fyrir lífeindafræðinga.“