„Þessi reglugerð skapar umgjörð sem gerir Evrópusambandinu kleift að grípa til aðgerða til þess að vernda fiskistofna fyrir ríkjum sem stunda ósjálfbæra veiðar á stofnum sem þau deila með sambandinu.“
Þetta segir í yfirlýsingu frá ráðherraráði Evrópusambandsins vegna samþykktar ráðsins í morgun á reglugerð sem heimilar sambandinu að grípa til víðtækra refsiaðgerða gegn ríkjum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar á fiskistofnum sem það deilir með öðrum ríkjum.
Frumvarp að reglugerðinni var áður samþykkt með 659 atkvæðum gegn 11 í Evrópuþinginu fyrr í þessum mánuði en fram kemur í yfirlýsingu ráðherraráðsins að hægt verði að beita reglugerðinni þegar hún hafi verið undirrituð og birt í lögbirtingablaði Evrópusambandsins.
Ennfremur er lögð á það áhersla í yfirlýsingu ráðherraráðsins að þær refsiaðgerðir sem kunni að verða gripið til standist alþjóðalög, gangi ekki lengra en nauðsyn krefji og gefi þeim ríkjum sem þeim er beint gegn tækifæri til þess að skýra afstöðu sína og bæta ráð sitt.
Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að umrædd lagasetning sé ekki sérstaklega beint gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar en í yfirlýsingunni er þess getið að lokum að reglugerðin kunni að nýtast í þeirri stöðu sem skapast hafi í deilunni.
Yfirlýsing ráðherraráðsins