Um þrjú hundruð hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum tóku þátt í samstöðufundi fyrir utan Landspítalann í Fossvogi í morgun en samninganefndir spítalans og hjúkrunarfræðinga funda um kjaramál í Fossvoginum.
Að sögn Ólafs G. Skúlasonar hjúkrunarfræðings er mikil samstaða meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa á Landspítalanum í kjarabaráttunni. Stofnanasamningur hjúkrunarfræðinga á spítalanum hefur verið laus síðan í júní í fyrra og hafa viðsemjendur hjúkrunarfræðinga sagt að ekkert svigrúm sé til launahækkana nú, að sögn Ólafs.
Hann segir að fundurinn í dag hafi verið ákveðinn með einnar og hálfrar viku fyrirvara en skyndilega í gær ákvað samninganefnd spítalans að breyta fundarstað. Hann segir hjúkrunarfræðinga velta því fyrir sér hvort það hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir að hjúkrunarfræðingar söfnuðust saman í morgun.
„Við ákváðum að mæta og sýna okkar samninganefnd að hún hefur fullan stuðning okkar hjúkrunarfræðinga á spítalanum,“ segir Ólafur.
Hann segir hjúkrunarfræðinga orðna langþreytta á að vera á jafnlágum launum og raun ber vitni og að ekkert miði í að hækka laun þeirra svo þau verði svipuð og hjá öðrum sambærilegum stéttum.
„Við ákváðum að nota tækifærið á meðan stofnanasamningarnir eru lausir til þess að koma kröfum okkar á framfæri,“ segir Ólafur og bætir við að spítalinn hafi hingað til sagt að ekki væri hægt að koma á móts við kröfur hjúkrunarfræðinga. Það er eins og það fylgi enginn peningur með stofnanasamningnum þrátt fyrir að þetta sé stór hluti af okkar kjarasamningum. Ríkið má nú alveg fara að hækka laun hjúkrunarfræðinga og veita peninga í heilbrigðiskerfið í þágu starfsmanna,“ segir Ólafur.