Í gær fóru fram á Faktorý fyrstu tónleikarnir í upphitunartónleikaröð Símans fyrir Airwaves-hátíðina en Síminn ætlar að bjóða fólki á tónleika öll miðvikudagskvöld í október fram að hátíðinni. Listamennirnir sem koma fram á tónleikaröðinni stíga einnig á stokk á Airwaves og eru því í raun að hita upp fyrir sjálfa sig. Ásgeir Trausti og Snorri Helgason riðu á vaðið í gærkvöldi við mikinn fögnuð viðstaddra. Monitor tók létt spjall við Ásgeir Trausta, sem hefur verið á allra vörum að undanförnu.
Hvað ert þú búinn að...
...spila tónlist í margar mínútur síðasta mánuðinn? 12345 mínútur samkvæmt nýjustu útreikningum.
...fá mörg áhorf á Youtube-myndbönd með þér síðan í júní? Ef ég tek öll myndböndin til samans þá er ég líklega búinn að fá svona 300 þúsund áhorf.
...gefa margar eiginhandaráritanir síðustu 2 vikurnar? Ég er búinn að gefa akkúrat nokkrar.
Þú ert mikið að spila þessa dagana. Gefst nokkur tími til að huga að áframhaldandi lagasmíðum? Já já. Það er alltaf tími ef maður er jafn skipulagður og ég. Ég er rosalega skipulagður.
Þetta er í fyrsta sinn sem þú spilar á Airwaves. Er mikil tilhlökkun? Það er mikil tilhlökkun hjá mér, já. Ég hef aldrei spilað áður og hef heldur ekki farið á Airwaves svo þetta verður allt mjög nýtt fyrir mér.
Margir erlendir tónlistarkonungar verða mættir á Airwaves. Er stefnan sett á erlendan markað? Sjáum bara hvað gerist.
Ætlar þú sjálfur að sjá eitthvað á Airwaves? Já, ég hlakka til að sjá SíSý Ey og svo er hellingur af artistum sem væri gaman að sjá.