Íris Björk Jónsdóttir, oft kennd við Úðafoss og GK, hannaði einkaklúbb í Kópavogi í góðærinu fyrir strákahóp sem vildi geta notið lífsins í frístundum. Í einkaklúbbnum er bar, sauna og golfhermir fyrir utan stofu, svefnherbergi og glæsileg baðherbergi. Nú er klúbburinn kominn á sölu. Kaupverð klúbbsins er ekki gefið upp en hann er 189 fm.
Á gólfunum er steinteppi og að hluta til eru veggirnir viðarklæddir. Eldhúsið er allt klætt með graníti og glamúrinn allsráðandi.
Í stofunni er hesturinn frá Moooi, sem er lampi í fullri hesta-stærð. Í góðærinu voru þrír slíkir hestar fluttir inn og fór einn í þennan klúbb, einn á skemmtistaðinn B5 og einn á auglýsingastofuna Jónsson og Lemacks. Tveir síðarnefndu hestarnir hafa reyndar skipt um eigendur samkvæmt heimildum Smartlands og eru þeir nú fluttir í lúxushótelíbúðir í miðbæ Reykjavíkur.
HÉR er hægt að skoða einkaklúbbinn nánar.