„Stefna Skotlands er sem fyrr sú að besta leiðin fram á við sé að ná samkomulagi um makrílveiðarnar á milli aðila málsins og við vonum að þær viðræður sem fyrirhugaðar eru síðar í þessum mánuði leiði til þess að samningar náist.“
Þetta segir Tom Whittles, fjölmiðlafulltrúi sjávarútvegsráðuneytis Skotlands, í samtali við mbl.is spurður um það hvernig makríldeilan á milli annars vegar Íslendinga og Færeyinga og hins vegar Evrópusambandsins og Noregs horfi við skoskum stjórnvöldum eins og staðan er í dag.
Whittles vísar í því sambandi í fyrri ummæli Richards Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, um deiluna, þess efnis að hann ráðherrann voni að fundin verði lending í deilunni á fundi strandríkja við Norðaustur-Atlantshaf sem fyrirhugaður er í London 22. október næstkomandi. Íslendingar og Færeyingar taki þá vonandi af alvöru þátt í viðræðum um lausn á málinu og átti sig á því að það skaði alla aðila málsins ef þeir haldi áfram að veiða makrílstofninn á óábyrgan hátt.
Ráðherrann hafi lagt áherslu á að það hafi tekið alltof langan tíma að fá það samþykkt á vettvangi Evrópusambandsins að sambandið fengi nauðsynleg úrræði til þess að beita refsiaðgerðum í deilunni ef þurfa þætti en vonandi hefði það áhrif á Íslendinga og Færeyinga að þeir kynnu að verða beittir slíkum aðgerðum ef þeir tækju ekki þátt í því fyrir alvöru að finna lausn á deilunni.
„En ef Íslendingar og Færeyingar halda áfram að taka sér of miklar aflaheimildir þá verður Evrópusambandið að mæta því með refsiaðgerðum,“ segir Whittles.