Áritaði vegabréf í Slóveníu

Sóley treður upp á Airwaves í ár.
Sóley treður upp á Airwaves í ár. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Færri komust að en vildu í síðustu viku þegar Ásgeir Trausti og Snorri Helga tróðu upp á Faktorý í upphitunartónleikaröð Símans fyrir Airwaves-hátíðina. Í gærkvöldi hélt svo veislan áfram þegar Sóley, 1860 og Samaris gáfu tónleikagestum nasasjón af því sem koma skal á Airwaves í ár. Monitor tók tal af Sóleyju af því tilefni.

Lagið þitt Pretty Face er með rúmlega 7.600.000 áhorf á Youtube. Hver er galdurinn á bak við þennan fjölda?
Ég gerði bara ekki neitt. Ég veit ekki hvernig þetta gerðist. Ég meira að segja ætlaði ekki að hafa þetta lag á plötunni, það var í raun tilviljun að þetta lag komst á plötuna. Það var einhver Þjóðverji sem hlóð þessu upp á Youtube og ég efast um að hann hafi búist við þessu heldur.

Hvar eru stærstu aðdáendahóparnir þínir?
Ég held að langstærsti hópurinn sé í Þýskalandi af því að Morr Music, plötufyrirtækið mitt, er þar. Svo er ágætt að spila í löndunum þar í kring. Austur-Evrópa er líka mjög skemmtileg. Þar er svo klikkað fólk á mjög góðan hátt. Því austar og því sunnar sem maður fer þar er fólk heitara í blóðinu. Það er einhver æsingur í þeim.

En það er nú kannski ekki æsingur í tónlistinni þinni.
Nei, nákvæmlega. En á Íslandi myndi enginn koma og biðja um eiginhandaráritun en þarna er fólk svo tryllt í að fá að taka myndir og fá áritun. Ég meira að segja áritaði vegabréf hjá einhverjum í Slóveníu eða eitthvað álíka.

Þú ferð á tónleikaferðalag með Of Monsters and Men í Nóvember. Hvað er fleira framundan hjá þér?
Ég er með næstu plötu inni í hausnum á mér. Akkúrat núna er ég að gera tónlist fyrir leikrit sem verður frumsýnt eftir viku í Kúlunni fyrir aftan Þjóðleikhúsið. Þetta er brúðuleikhús fyrir fullorðna og það er ekkert talað í þessu. Svo tónlistin spilar stóran þátt. Það er mjög skemmtilegt verkefni. En þegar því lýkur ætla ég að örugglega að byrja á næstu plötu.

Hvað ætlar þú sjálf að sjá á Airwaves?
Ég veit að Dirty Projectors eru að spila á sama stað og Sin Fang svo ég stefni á að kíkja á það en svo þarf annað að koma í ljós.

Meira í Monitor. Blaðið má lesa hér að neðan.

mbl.is