Færri komust að en vildu í síðustu viku þegar Ásgeir Trausti og Snorri Helga tróðu upp á Faktorý í upphitunartónleikaröð Símans fyrir Airwaves-hátíðina. Í gærkvöldi hélt svo veislan áfram þegar Sóley, 1860 og Samaris gáfu tónleikagestum smjörþefinn af því sem koma skal á Airwaves í ár.
Monitor ræddi við Hlyn Hallgrímsson úr 1860.
Hvað er framundan hjá 1860?
Ógeðslega mikið af plötuupptöku en við ætlum að gefa út plötu í mars á næsta ári. Svo erum við að spila heila gommu. Maður er bara að reyna að hafa tíma fyrir andlegu hliðina.
Hvað er skemmtilegast við plötuútgáfuferlið?
Það er að vera ótrúlega mikið í kringum vini sína. Maður er með svo óheftan aðgang að vinum sínum í þessu bandi og samveran er best.
Þannig að þið eruð allir vinir?
Já, ég myndi segja það og ég vona að þeir segi það sama um mig.
Hvað er það sísta við ferlið?
Allar málamiðlanir og allt sem þjónustar ekki tónlistina heldur vöruna sjálfa.
Þið bættuð við ykkur meðlimum frá því á síðustu plötu. Er mikill munur á hljómi sveitarinnar eftir þær breytingar?
Þó að þetta sé ennþá sama pæling þá er þetta alltaf að fara að breytast eitthvað. Það er meiri kraftur, en maður reynir samt að halda í næmið þó að við séum komnir með bassaleikara, trommara og rafgítarleikara.
Hver er snilldin við Airwaves?
Gleðin. Andrúmsloftið er ótrúlega gott og stemningin er mikil. Það eru einhverjir töfrar í loftinu.
Ætlar þú að sjá eitthvað sjálfur á Airwaves?
Ef ég verð ekki of bugaður af öllum Off-Venue-giggunum okkar þá var ég búinn að segja við mig að fyrr myndi ég skera af mér hendurnar en að missa af Shabazz Palaces.
Meira í Monitor. Blaðið má lesa í heild sinni hér að neðan.