Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, gagnrýndi harðlega áform Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gagnvart Íslandi, á fundi Evrópunefnda þjóðþinga ESB og umsóknarríkja á Kýpur í dag.
Í ávarpi sínu gerði Árni Þór Sigurðsson að meginumtalsefni samþykkt Evrópuþingsins og ráðsins um refsiaðgerðir vegna fiskveiða. Hann hóf mál sitt á að vísa stuttlega til stöðu aðildarviðræðna, sem hefðu gengið nokkuð vel, 18 kaflar hefðu verið opnaðir og 10 þegar lokað. Ekki hefðu komið fram skýringar á töfum á opnun sjávarútvegskaflans, að því er segir í tilkynningu.
Reglugerð Evrópuþingsins um refsiaðgerðir vegna fiskveiða væri áhyggjuefni og ylli verulegum vonbrigðum vegna, að því er virtist, augljósrar tengingar hennar við makrílmálið.
Ákvæði reglugerðarinnar væru í bága við samþykktir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), við meginreglur innri markaðarins sem Ísland væri hluti af, og sérstaklega við bókun 9 við EES-samninginn.
Árni Þór minnir á að Íslendingar hafi stundað ábyrga og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins á meðan sjávarútvegsstefna ESB hafi ekki fagnað sama gengi, heldur leitt til ofveiði með tilheyrandi hruni fiskstofna. Nauðsynlegt væri að taka tillit til hagsmuna allra strandríkja í málinu til að ná sanngjörnu samkomulagi um nýtingu makrílsstofnsins, segir í tilkynningu.
„Hótanir um refsiaðgerðir hafa þveröfug áhrif og geta tafið eða jafnvel komið i veg fyrir sanngjarna lausn málsins. Þess vegna gagnrýni ég harðlega, af Íslands hálfu, þau skref sem Evrópuþingið og ráðherraráðið hafa tekið,“ sagði Árni Þór Sigurðsson.
Í máli Evrópuráðherra Kýpur, sem fer nú með formennsku í ESB, kom fram að af hálfu ESB væri mikill skilningur á mikilvægi fiskveiða á Íslandi. Skýrar reglur giltu vissulega um hvernig málum vindur fram.
Jafnframt sagði hann það ekki í anda Evrópusambandsins að beita hótunum við lausn ágreiningsmála. Búast mætti við að samningskaflinn um sjávarútvegsmál yrði opnaður í formennskutíð Íra, þegar réttar kringumstæður væru fyrir hendi. Tók ráðherrann fram að hann teldi það lykilinn að stuðningi íslensku þjóðarinnar við aðildarumsóknina að opna sjávarútvegskaflann sem fyrst.
Auk Árna Þórs Sigurðssonar situr Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fund þingmannanna, segir ennfremur í tilkynningu.