Óvíst með opnun sjávarútvegskaflans

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður ger­ir sér enga grein fyr­ir því hvenær þeir ætla sér að opna sjáv­ar­út­vegskafl­ann í viðræðunum. Það er al­ger óvissa um það hvenær það gæti orðið og þeim ligg­ur greini­lega ekk­ert á í þeim efn­um. Þetta er allt í upp­námi og ofan á það leggst að við stönd­um í þess­um deil­um við Evr­ópu­sam­bandið um mak­ríl­inn.“

Þetta seg­ir Ólöf Nor­dal, þingmaður og vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, í sam­tali við mbl.is en hún er nú stödd á fundi Evr­ópu­nefnda þjóðþinga Evr­ópu­sam­bands­ins og ríkja sem sótt hafa um inn­göngu í sam­bandið sem fram fer á Kýp­ur ásamt Árna Þór Sig­urðssyni, þing­manni Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs og for­manns ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Alþing­is.

„Ég gat ekki skilið ræðu Evr­ópuráðherra Kýp­ur, sem nú fer með for­sætið inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins, öðru­vísi en svo að það sé al­veg óljóst hvenær kafl­inn verði opnaður. Hann nefndi að vísu að það gæti gerst í tíð næsta for­sæt­is á fyrri hluta næsta árs en það var ekki að heyra að hann teldi nokkuð víst að svo yrði,“ seg­ir Ólöf.

Spurð um viðbrögð evr­ópsku þing­mann­anna við mót­mæl­um sem Árni Þór kom á fram­færi á fund­in­um í morg­un vegna hót­ana Evr­ópu­sam­bands­ins um refsiaðgerðir gegn Íslandi vegna mak­ríl­deil­unn­ar seg­ir Ólöf þing­menn­ina ekki hafa gert mikið með þau. „Við erum ein­fald­lega í mjög furðulegu ferli með öll þessi mál gagn­vart Evr­ópu­sam­band­inu og mér finnst það alltaf verða furðulegra og furðulegra. Þess­ar viðræður um aðild Íslands að sam­band­inu eru hrein­lega komn­ar í full­komið öngstræti.“

Ólöf bæt­ir því við að mak­ríl­deil­an gefi fullt til­efni til þess að gera Evr­ópu­sam­band­inu það ljóst að eng­inn til­gang­ur sé með því að halda um­sókn­inni til streitu. „Menn verða bara að átta sig á því að Íslend­ing­ar vilja ekki ganga í Evr­ópu­sam­bandið og þetta er því allt al­ger­lega ótíma­bært. Þetta er bara ein­hver þrá­hyggja sem ræður ríkj­um við stjórn lands­ins í þess­um mál­um. Þrá­hyggja Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og fylg­is­manna í öðrum flokk­um.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina