„Maður gerir sér enga grein fyrir því hvenær þeir ætla sér að opna sjávarútvegskaflann í viðræðunum. Það er alger óvissa um það hvenær það gæti orðið og þeim liggur greinilega ekkert á í þeim efnum. Þetta er allt í uppnámi og ofan á það leggst að við stöndum í þessum deilum við Evrópusambandið um makrílinn.“
Þetta segir Ólöf Nordal, þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hún er nú stödd á fundi Evrópunefnda þjóðþinga Evrópusambandsins og ríkja sem sótt hafa um inngöngu í sambandið sem fram fer á Kýpur ásamt Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formanns utanríkismálanefndar Alþingis.
„Ég gat ekki skilið ræðu Evrópuráðherra Kýpur, sem nú fer með forsætið innan Evrópusambandsins, öðruvísi en svo að það sé alveg óljóst hvenær kaflinn verði opnaður. Hann nefndi að vísu að það gæti gerst í tíð næsta forsætis á fyrri hluta næsta árs en það var ekki að heyra að hann teldi nokkuð víst að svo yrði,“ segir Ólöf.
Spurð um viðbrögð evrópsku þingmannanna við mótmælum sem Árni Þór kom á framfæri á fundinum í morgun vegna hótana Evrópusambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi vegna makríldeilunnar segir Ólöf þingmennina ekki hafa gert mikið með þau. „Við erum einfaldlega í mjög furðulegu ferli með öll þessi mál gagnvart Evrópusambandinu og mér finnst það alltaf verða furðulegra og furðulegra. Þessar viðræður um aðild Íslands að sambandinu eru hreinlega komnar í fullkomið öngstræti.“
Ólöf bætir því við að makríldeilan gefi fullt tilefni til þess að gera Evrópusambandinu það ljóst að enginn tilgangur sé með því að halda umsókninni til streitu. „Menn verða bara að átta sig á því að Íslendingar vilja ekki ganga í Evrópusambandið og þetta er því allt algerlega ótímabært. Þetta er bara einhver þráhyggja sem ræður ríkjum við stjórn landsins í þessum málum. Þráhyggja Samfylkingarinnar og fylgismanna í öðrum flokkum.“